Áframhaldandi halli verður á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem fjármálaráðherra kynnti í dag. Þrátt fyrir að fjárlögin hafi verið kynnt sem aðhaldssöm felur frumvarpið í sér áframhaldandi hallarekstur.

Áframhaldandi halli verður á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem fjármálaráðherra kynnti í dag. Þrátt fyrir að fjárlögin hafi verið kynnt sem aðhaldssöm felur frumvarpið í sér áframhaldandi hallarekstur.

Gert er ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 46 milljarðar króna á árinu 2024, upphæð sem samsvarar 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þá er áætlað að skuldir ríkissjóðs verði um 1.400 ma.kr., eða sem nemur 30,9% af VLF, í lok 2024. Áætlað er að skuldahlutfallið verði 32% af VLF í lok þessa árs.

Í frumvarpinu kemur fram að áframhaldandi lækkun skulda sé grundvallaratriði á komandi ári en fyrirhuguð sala á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka skýri hátt í 90% af lækkun skuldahlutfallsins milli ára.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi sölu á eignarhlut í Íslandsbanka í forsendum frumvarpsins en miðað er við að eftirstandandi hlutur ríkissjóðs verði seldur í jöfnum hlutum á næsta ári og á árinu 2025. Markaðsvirði Íslandsbanka er í dag 223,2 milljarðar en ríkissjóður hefur þegar selt samtals 57,5% hlut í bankanum.

Eftir stendur 42,5% hlutur og nemur markaðsvirði hans 94,9 milljörðum króna. Á árinu 2024 er gert ráð fyrir sölu á helmingi þess hlutar sem ríkissjóður á eftir í bankanum, sem nemur 47,4 ma.kr. á núverandi markaðsvirði. Hinn helmingurinn yrði síðan seldur árið 2025.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu kl. 20.30 í kvöld með því að smella á Blöðin efst á forsíðu vb.is