Íslandshótel stefna á skráningu á Aðalmarkað Kauphallarinnar í næsta mánuði. Félagið er stærsta hótelkeðja landsins og rekur átján hótel með tæplega tvö þúsund herbergi um land allt.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, hefur ásamt starfsfólki og ráðgjöfum unnið hörðum höndum undanfarið við að undirbúa skráningu og kynna félagið fyrir fjárfestum. „Við höfum haldið nokkrar vel heppnaðar frumkynningar fyrir fjárfesta, sem snúast mest um að kynna félagið og starfsemi þess. Í kringum útgáfu skráningarlýsingar munum við svo halda nánari fjárfestakynningar, bæði fyrir fagfjárfesta sem og almenna fjárfesta.“

Verða áfram með kjölfestueignarhald

Faðir Davíðs, Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, á ásamt fjölskyldu sinni um 75% hlut í fyrirtækinu sem hann stofnaði fyrir þrjátíu og tveimur árum í gegnum ÓDT Ráðgjöf ehf. Fjárfestingafélagið S38 slhf. er annar stærsti hluthafinn með um 24% hlut sem keyptur var á ríflega 2,8 milljarða króna árið 2015. S38 er að mestu í eigu lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélögin Kjölfestu og Eddu, en jafnframt eru þrír lífeyrissjóðir beinir eigendur S38.

Aðspurður segir Davíð Torfi að stærð útboðsins og nánara fyrirkomulag ekki enn liggja endanlega fyrir. „Þetta er allt saman í vinnslu en S38 sem á tæplega fjórðungshlut mun selja þann hluta sem er í eigu Eddu og Kjölfestu, en lífeyrissjóðirnir sem eru beinir eigendur í S38 munu eiga sína hluti áfram. Þá er stefnt á að hlutur ÓDT Ráðgjafar muni fara niður fyrir 50% en að félagið verði þó áfram með kjölfestu eignarhald í félaginu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.