Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, tapaði 1,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt nýbirtu uppgjöri. Til samanburðar tapaði félagið 592 milljónum á sama tímabili í fyrra.

Kostnaðarhækkanir eftir stöðugleikasamningana

Tekjur Íslandshótela drógust saman um 0,8% milli ára og námu 6,7 milljörðum króna á fyrri árshelmingi.

Rekstrargjöld félagsins jukust um 500 milljónir eða um 9,2% frá sama tímabili í fyrra og námu nærri 6 milljörðum króna. Þar munaði mestu um að launa og tengd gjöld, stærsti kostnaðarliðurinn, hækkaði um 11,4% milli ára, eða úr ríflega 3,5 milljörðum í 3,9 milljarða.

„Hækkun kostnaðar hjá félaginu má rekja til kjarasamningshækkana sem og hás vaxtastigs hérlendis og á erlendum mörkuðum,“ segir í skýrslu stjórnar í árshlutareikningi félagsins.

Rekstrarhagnaður félagsins á fyrri árshelmingi fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði því úr 1.290 milljónum í 735 milljónir milli ára.

Stjórn félagsins bendir á að fjöldi ferðamanna sem komu til landsins fyrstu 6 mánuði ársins voru 956 þúsund samanborið við 953 þúsund fyrir sama tímabil 2023. Gistinætur á fyrri árshelmingi voru hins vegar 5% færri en á sama tímabili í fyrra.

„Samkvæmt greiningardeildum er nú gert ráð fyrir að fjöldi ferðamanna til landsins verði um 2,2 milljónir en áætlanir í upphafi árs gerðu ráð um 2,4 milljónir auk þess sem gert er ráð fyrir að gistinætur verði færri í ár en árið 2023. Ljóst er að eldsumbrot á Reykjanesi hafa haft áhrif á komur ferðamanna til landsins.“

Enginn ákvörðun tekin um aðra tilraun til skráningar

Íslandshótel réðust í almennt hlutafjárútboð í maí síðastliðnum, þar sem ætlunin var að skrá félagið í kjölfarið á aðalmarkað Kauphallarinnar. Íslandshótel

Seljendur hlutabréfa í útboðinu ákváðu hins vegar að falla frá útboðinu og þar með skráningu félagsins þar sem ekki fékkst áskrift í fyrir öllum boðnum hlutum.

„Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari áform í tengslum við skráningarvegferð félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar Íslandshótela.