Íslandshótel töpuðu 95 milljónum króna eftir skatta árið 2022, samanborið við 121 milljónar tap árið 2021. Velta hótelkeðjunnar, sem rekur átján hótel, jókst um 90% á milli ára og nam 13,4 milljörðum króna, að ‏því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Rekstrargjöld félagsins tvöfölduðust á milli ára og námu 10,2 milljörðum. Laun og launatengd gjöld jukust um 114% á milli ára, úr 2,9 milljörðum í 6,2 milljarða króna. Fjöldi ársverka jókst úr 360 í 694 á milli ára. Afturvirkni launahækkana frá nóvember í nýsamþykktum kjarasamningum hafði áhrif á launakostnað í fyrra.

Rekstrarhagnaður Íslandshótela fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,3 milljörðum króna í fyrra samanborið við 2 milljarða árið 2021.

Endanlegt tekjutap vegna verkfalla óljóst

Covid-faraldurinn hafði gífurleg áhrif ár rekstur Íslandshótela líkt og annarra félaga í ferðaþjónustu‏. Stjórn hótelkeðjunnar segir að ‏þrátt fyrir afléttingu sóttvarnaraðgerða í febrúar 2022 þá hafi áhrifin af faraldrinum varað lengur „og ljóst er að rekstur félagsins var þungur á árinu“.

Stjórnin segir að meðalverð á gistinótt hafi lækkað á Covid-tímabilinu. Verð hótelkeðjunnar í fyrra hafi ekki náð sambærilegum meðalverðum og árin fyrir Covid. Auk þess hafi verið töluverður kostnaður sem féll til við enduropnun hótela eftir Covid-tímabilið.

Í skýrslu stjórnar er einnig rætt um verkfallsaðgerðir Eflingar í byrjun ársins sem hafði veruleg áhrif á reksturinn. „Ekki er ljóst hvert endanlegt tekjutap verður vegna þessara aðgerða,“ segir stjórnin.

Eignir Íslandshótela voru bókfærðar á 59,1 milljarð króna í árslok 2022, samanborið við 54,7 milljarða ári áður. Eigið fé félagsins nam 20,7 milljörðum og eiginfjárhlutfallið var 35,0%.

Stærsti hluthafi Íslandshótela er Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður félagsins, en hann fer með um 75%. Fjárfestingarfélagið S38 slhf. er annar stærsti hluthafinn með 24% hlut sem keyptur var á ríflega 2,8 milljarða króna árið 2015. S38 er að mestu í eigu lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélögin Kjölfestu og Eddu.

„Íslandshótel eru að vinna styrk sinn til baka eftir erfiða tima vegna Covid heimsfaraldursins, en eðli málsins samkvæmt tekur það tíma að ná vopnum sínum aftur eftir nærri 2ja ára hlé. Það hefur þó gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Reksturinn gengur vel þó kjarasamningsmál hafi reynst félaginu þungbær en það er bjart framundan, enda má reikna með að fjöldi ferðamanna til landsins aukist verulega og gæti orðið 2,3 milljónir á þessu ári,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.