Íslandspóstur hagnaðist um 187,5 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 30,6 milljóna hagnað árið áður. Ríkisfyrirtækið birti ársreikning fyrir árið 2024 í dag.
Velta Póstsins nam 7.640 milljónum króna í fyrra og jókst um 531 milljón, eða 7,5%, milli ára. Tekjur vegna alþjónustubyrði voru 618 milljónir í fyrra samanborið við 487 milljónir árið áður.
„Samkeppni á pakkamarkaði, ný samkeppni á bréfamarkaði og erlendar sendingar höfðu mikil áhrif á rekstur félagsins,“ segir í fréttatilkynningu Póstsins.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam tæplega 823 milljónum, samanborið við 556 milljónir árið áður. EBITDA-hlutfall ársins var 10,8% samanborið við ríflega 8% árið 2023.
Eignir Póstsins voru bókfærðar á 6,5 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 3,8% milljarðar.
Stöðugildum fækkar
Stöðugildum fækkaði milli ára en þau voru 460 í árslok 2024 samanborið við 472 árið áður. Á árinu hefur póstboxum fjölgað úr 90 í 119.
„Áframhaldandi fjárfestingar í sjálfvirknivæðingu kerfa Póstsins hefur skilað sér í hraðari afgreiðslu erlendra skráðra sendinga. Hraðinn er slíkur að um 95% af slíkum sendingum inn á höfuðborgarsvæðið skila sér innan sólarhrings og yfir 90% á landsbyggðina innan tveggja daga.“
Í máli Þórhildar Ólafar Helgadóttur, forstjóra Póstsins, á aðalfundinum í dag, kom fram að samkeppnisumhverfið breytist hratt.
„Hlutverk Póstsins er þó óbreytt; þ.e. að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld.
Aðgengi að viðeigandi póstþjónustu er afar mikilvægur þjónustuþáttur fyrir íbúa landsins og styður við meginmarkmið byggðaáætlunar um blómlegar byggðir og öfluga byggðakjarna sem stuðlar að jöfnu aðgengi að grunnþjónustu sem póstþjónustan er. Hún er því mikilvægt byggðamál sem verður að nálgast út frá hagsmunum þeirra sem þjónustunnar njóta og styður við búsetufrelsi fólksins í landinu.”
Þá sagði Þórhildur jafnframt að Pósturinn hefði eignast 16 nýja rafbíla á árinu og hlutfall farartækja sem gangi fyrir umhverfisvænum orkugjöfum væri 59%.
„Grænar leiðir á Reykjanesskaga og Norðurlandi eru einnig til marks um stórstígar framfarir í umhverfismálum hjá Póstinum. Þess má líka geta að öll bréfadreifing er græn á höfuðborgarsvæðinu og að mestu í stærri þéttbýliskjörnum þar sem rafmagnspósthjól eru nýtt við dreifinguna.“