Teymið á bak við eistneska veðmálafyrirtækið Coolbet, sem selt var til GAN á 176 milljónir dala árið 2020, hefur stofnað veðmálafyrirtækið Sisu Tech sem sérhæfir sig í tæknilausnum fyrir önnur veðmálafyrirtæki. Norðmaðurinn Jan Svendsen fer fyrir hópnum, en hann setti Coolbet á laggirnar árið 2014 og stofnaði einnig NordicBet sem var keypt af Betsson árið 2012 fyrir 85 milljónir evra, auk þess að hafa stofnað Triobet.

Félagið lauk nýverið fjármögnunarlotu til fjárfesta þar sem lagt var upp með að safna 14 milljónum evra, en umframeftirspurnar varð og safnaði félagið 19,5 milljónum evra. Sisu Tech var metið á 22,8 milljónir evra í hlutafjárútboðinu, eða sem nemur um 3,4 milljörðum króna.

Það er kannski ekki skrítið sökum velgengni Coolbet á Íslandi að fjölmargir Íslendingar tóku þátt í hlutafjárútboðinu, og fara alls 24 íslenskir fjárfestar samtals með um 7,5% hlut í fyrirtækinu. Hér er líklega um að ræða fyrsta veðmálasprotafyrirtækið sem Íslendingar koma að.

„Meginþorri fjárfesta eru auðvitað starfsmennirnir sjálfir sem mér finnst frábært. Við erum einnig ánægðir með áhugann frá íslenskum fjárfestum. Það var afmarkaður hópur sem var boðið að taka þátt og allir voru spenntir fyrir tækifærinu að vera með í því að stofna nýtt fyrirtæki í þessum geira,“ segir Daði Laxdal Gautason, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Sisu Tech.

Nánar er fjallað um Sisu Tech í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.