Íslendingar erlendis hafa verið duglegir við að fara fjárfestingarleið Seðlabankans að undanförnu. Seðlabankinn greindi frá niðurstöðum síðasta útboðsins í dag en þar kemur fram að fjárfestingar í fasteignum eru í flestum tilvikum smáar og framkvæmdar af íslenskum einstaklingum sem búa erlendis eða hyggja á heimflutning. Þessar fjárfestingar hafa numið um 10% af fjárfestingarleiðinni hingað til eða um 10,5 milljónir evra.
Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag tók Seðlabanki Íslands tilboðum að fjárhæð 38,6 milljónir evra í gjaldeyrisútboði þar sem bankinn bauðst til þess að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur. Alls bárust 66 tilboð að fjárhæð 61,3 milljónir evra. Tilboð í gegnum fjárfestingarleiðina í þetta sinn voru 33 talsins og nam heildarupphæðin 25,7 milljónum evra.