Reykjavík Geothermal er einn af eigendum verkefnisins sem á að gera Kanaríeyjar sjálfbærari í orkumálum.
Tilkynnt var í dag að í fyrsta sinn í sögu Tenerife eyju á Kanaríeyjum verður borað fyrir jarðhita til væntanlegrar orkuvinnslu og munu boranir hefjast í haust.
Reykjavík Geothermal, ásamt orkufyrirtækinu DISA, stærsta fyrirtæki Kanaríeyja, og stjórnvöldum á Tenerife í gegnum opinberu fyrirtækin ITER og Involcan, standa saman að verkefninu. Þau hafa stofnað verkefnafélagið Energía Geotérmica de Canarias (EGC), sem mun hefja fyrstu jarðhitaleitina með borunum á suðurhluta eyjarinnar í september.
Formleg stofnun á EGC fór fram með undirritun við hátíðlega athöfn í Santa Cruz á Tenerife í dag.
Borholurnar verða á bilinu 2.500 til 3.000 metra djúpar og markmiðið er að staðfesta aðstæður til orkuframleiðslu með jarðhita sem hreinni, stöðugri og staðbundinni orku sem nýtist allt árið um kring.

Tenerife í orkusjálfsbjargarbaráttu
Jarðhitaleitin á sér stað í samhengi við sífellt brýnni þörf eyjarinnar fyrir sjálfbæra og hagkvæma orku. Í dag kemur yfir 80% rafmagnsframleiðslu á Tenerife úr innfluttri olíu, sem brennd er í ljósavélum.
„Slíkt fyrirkomulag er bæði umhverfislega skaðlegt og gríðarlega dýrt, og þarf spænska ríkið að niðurgreiða orkukostnaðinn fyrir íbúa eyjunnar og reyndar á öllum Kanaríeyjum,“ segir í tilkynningunni.
„Þar sem hvorki er hægt að virkja vatnsafl á eyjunni né talið svigrúm til að byggja fleiri stór vind- og sólarorkuver, sem taka um tífalt meira landrými en sambærileg jarðhitaorkuver, hefur nýting jarðhita vaxandi vægi í framtíðaráætlunum stjórnvalda á eyjunni.“
Reykjavík Geothermal kemur að verkefninu bæði sem eigandi og tæknilegur leiðandi. Fyrirtækið hefur víðtæka reynslu af þróun jarðhitaverkefna víða um heim og nýtir nú þá þekkingu til að styðja við fyrsta skrefið í nýtingu jarðhita á Tenerife.
„Þetta verkefni er byggt á reynslu, þekkingu og trú okkar Íslendinga á jarðhita sem sjálfbæran orkugjafa, og gæti gjörbreytt aðstæðum til orkuframleiðslu á Tenerife. Það traust sem samstarfsaðilar okkar í verkefninu leggja til okkar er mikil viðurkenning á íslensku hug- og verkviti á sviði jarðhita og heiður fyrir okkur,“ segir Magnús Ásbjörnsson, forstjóri Reykjavik Geothermal.
Rannsóknir benda til góðra aðstæðna
Jarðvísindarannsóknir, umhverfisrannsóknir og undirbúningsvinna hafa staðið yfir síðast liðin tvö ár. Reykjavík Geothermal segir að yfirborðsathuganir sem framkvæmdar voru árið 2024 hafi sýnt efnilegar vísbendingar um jarðhita á suður- og vesturhluta eyjarinnar.
Nú sé beðið eftir endanlegri stjórnsýslulegri heimild frá yfirvöldum Kanaríeyja til að hefja boranir en borverkið hefur þegar verið boðið út.
„Ef boranir reynast árangursríkar er reiknað með að uppbygging jarðhitaorkuvera geti orðið mikilvæg viðbót í orkuframboði Tenerife, stuðlað að orkuskiptum á eyjunni og dregið þannig verulega úr notkun á innfluttri olíu.“