Íslensku markaðstæknifyrirtækin The Engine Nordic og Ghostlamp, sem bæði eru dótturfyrirtæki Pipar\TBWA, hafa byrjað að markaðssetja Norður Atlantshafssíld fyrir Samtök matvælaframleiðenda í Danmörku ásamt TBWA\Connected í Kaupmannahöfn.
Verkefnið er unnið fyrir samtök matvælaframleiðenda í Danmörku og er markmið verkefnisins að kenna yngri kynslóðum á þekktum mörkuðum að elda og borða síld úr Norður Atlantshafi. Verkefnið er unnið í sameiginlegu teymi frá Danmörku, Íslandi og Noregi.
Valgeir Magnússon, stjórnarformaður Pipar\TBWA, segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt en það sé einnig að eiga sér stað í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Svíþjóð.
„Það er mjög mismunandi hvernig síld er borðuð á milli landa svo það er búið að búa til mismunandi lendingasíður fyrir hvern markað með uppskriftum. Til viðbótar fengum við fjölda áhrifavalda til að búa til uppskriftir í sínu heimalandi og stutta matreiðsluþætti," segir Valgeir.