David Martin, stofnandi M Worldwide, er var hér á dögunum vegna breytinga á komusal Fríhafnarinnar. Hann segir M Worldwide hafa byggt upp mikla þekkingu á íslenska markaðnum og að Íslendinga séu einkar opnir fyrir tillögum utan frá og til í að prófa nýja hluti.
M Worldwide var stofnað árið 2001 og er með höfuðstöðvar í London og útibú í Norður-Ameríku, Mið-Austurlöndum, Asíu og á Indlandi. Fyrirtækið hefur unnið að mörgum ólíkum verkefnum um allan heim í að skapa vörumerkjum sérstöðu og auðga upplifun viðskiptavina.
M Worldwide hefur frá árinu 2005 unnið að mörgum verkefnum á Íslandi, fyrir fyrirtæki eins og Arion banka, Reiti vegna Kringlunnar, Húsasmiðjuna, Heimkaup, Hagkaup, Fríhöfnina og Te & Kaffi. Þá kom fyrirtækið að ráðgjöf fyrir Sigtún þróunarfélag, sem stóð að uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi.
Verkefni sem lýkur aldrei
David Martin, annar eigandi og stofnandi M Worldwide, býr í London en hefur verið mikið á Íslandi allt frá árinu 2005 enda hefur fyrirtækið verið mjög fjölmörg verkefni hérlendis. Í síðustu viku var hann hér vegna vinnu M Worldwide að breytingum á komusal Fríhafnarinnar. Hann segir hverskyns vinnu við flugvelli alltaf ólíka mörgum öðrum verkefnum.
„Í eðli sínu eru þetta verkefni sem lýkur aldrei. Flugvellir eru alltaf að breytast og stækka en það hefur verið frábært að taka þátt í þessari vinnu á Keflavíkurflugvelli,“ segir hann.
„Viðskiptavinir fríhafnarinnar skiptast eiginlega í tvo flokka. Þau sem eru að koma heim úr ferðalagi og þau sem eru að hefja sitt ferðalag, spennt að komast á áfangastað. Hugur þessa fólks er á ólíkum stað og því er svo mikilvægt að við skiljum viðskiptavinina og veitum þeim það sem þau þurfa þrátt fyrir að það sé ólíkt. Á stað eins og þessum, þar sem fólk er að koma úr ferðalagi er afar mikilvægt að flækjustigið sé ekki mikið,“ segir David.
Byrjaði með Baugi Group
Spurður hvernig standi á því að M Worldwide hefið komið að jafnmörgum verkefnum á Íslandi og raun ber vitni svarar hann: „Þetta byrjaði þannig að við kynntumst Íslendingum frá Baugi Group í London og byrjuðum að vinna með þeim svo hefur þetta undið upp á sig,“ segir David. „Viðskiptasamfélagið á Íslandi er mjög náið og tengslanetið er sterkt sem gerir það að verkum að ef þú stendur þig vel er auðvelt að mynda góð sambönd og fá fleiri spennandi verkefni.“
Að sögn David hefur M Worldwide byggt upp mikla þekkingu á íslenska markaðnum. Hann segir Íslendinga einkar opna fyrir tillögum utan frá og til í að prófa nýja hluti með það að markmiði að auka sölu og hagkvæmni í rekstri.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.