ADQ, þjóðarsjóður furstadæmisins í Abú Dabí, hefur gengið frá kaupum á 70% eignarhlut íslenskra hluthafa í Marriott hótelinu Reykjavík Edition sem stendur við hlið Hörpu.
Viðskiptablaðið sagði fyrst frá því í sumar að ADQ ætti í viðræðum um kaup á hlut íslensku hluthafanna í hótelinu. Bandaríska verktakafyrirtækið Carpenter & Co., sem hefur leitt verkefnið fyrir hönd erlendu fjárfestanna ásamt Eggerti Þór Dagbjartssyni, mun halda hlut sínum í félaginu.
Í tilkynningu Stefnis, sem heldur utan um rekstur Mandólíns, segir að engar breytingar verði á rekstri Reykjavík Edition sem áfram verður rekið af Marriott International.
„Hótelið sem er á margan hátt einstakt og býður upp á þjónustuframboð sem ekki hefur áður verið til staðar hér á landi, opnað og mun það hafa mjög jákvæð áhrif á umhverfi sitt og skapa margvísleg tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu og ráðstefnuhald á komandi árum.
Salan er því í samræmi við þá sýn SÍA III að hótelið myndi vekja áhuga erlendra langtímafjárfesta sem sjá tækifæri í því að taka þátt í frekari framþróun ferðamannaiðnaðar hér á landi.“
Íslenskir hluthafar áttu um 70% hlut í hótelinu í gegnum félagið Mandólín. Framtakssjóðurinn SÍA III, í stýringu hjá Stefni og í eigu fjölda íslenskra lífeyrissjóða, á helmingshlut í Mandólín.
Þá eiga Almenni lífeyrissjóðurinn og Festa lífeyrissjóður samtals ríflega 11% hlut í Mandólín. Stormtré ehf., í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Snæból ehf., í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns R. Stefánssonar, eiga hvort um sig 12,5% hlut. Vitinn Reykjavík ehf., sem er að mestu í eigu Vörðu Capital, á um 9,4% hlut, og Feier ehf. í eigu hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg á um 4%.