Íslenskir fjárfestar eru meðal stærstu hluthafa í bresku félagi sem á um 200 krár víðsvegar um Bretland sem félagið leigir út. Stjórnendur félagsins stefna á að tvöfalda umsvif þess. Fasteignir félagsins voru í árslok 2020 metnar á um 13 milljarða króna samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins. Félagið hefur keypt um 33 krár til viðbótar á þessu ári. Þar af tilkynnti félagið um kaup á átta krám fyrr í þessari viku.
Safna hátt í 9 milljörðum til frekari kráakaupa
Stjórnendur Red Oak Taverns og hafa sagt í viðtölum að markmiðið sé að tvöfalda umsvif félagsins. Mark Gunnell, framkvæmdastjóri Red Oak Taverns, sagði í viðtali í mars að félagið væri langt komið með að ljúka 35 milljóna punda hlutafjáraukningu, sem nemur sex milljörðum króna. Þá fékk félagið 15 milljóna punda bankalán fyrr á árinu, um 2,6 milljarða króna, til að fjármagna frekari kaup á krám.
Íslendingar eiga hátt í helmingshlut í félaginu. Meðal stærstu hluthafa eru Mainstone ehf., fjárfestingafélag Elfars Aðalsteinssonar kvikmyndaframleiðanda, Fossar, fjárfestingafélag Sigurbjörns Þorkelssonar og Aðalheiðar Magnúsdóttur, og Riverside Capital, fjárfestingafélag Örvars Kjærnested. Örvar er einnig meðal stærstu hluthafa og stjórnarmaður í Stoðum. Örvar á sæti í stjórn Red Oak Taverns og Elfar sat þar einnig um tíma.
Meðal annarra íslenskra hlutahafa í félaginu eru RZ ehf.,fjárfestingarfélag Zimsen fjölskyldunnar, Þórdís Edwald, eiginkona Ármanns Þorvaldssonar aðstoðarforstjóra Kviku banka, Bæjarbúið, félag í eigu Kjartans Gunnarssonar, sem og Linda Stefánsdóttir.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Fjallað er um íslenska jafnréttisútrás
- Systurveitingastaðir í Vesturbæ opna nýjan stað í miðbænum
- Tölvuleikjafyrirtæki með mikla tengingu við Ísland er í vaxtarfasa
- Framkvæmdastjóri SAF segir þörf á nýrri fjárfestingu í ferðaþjónustunni
- Nýr framkvæmdastjóri tekur við elsta starfandi endurvinnslufyrirtæki landsins um áramótin
- Týr skrifar um stjórnarandstöðuna
- Óðinn skrifar um Elon Musk, Kína og rafbíla
- Huginn og muninn eru á sínum stað
- Þjóðskrá eykur aðgengi að gögnum
- Seðlabankar heimsins feta nú veginn á milli hækkandi verðbólgu og hagvaxtar á tímum heimsfaraldurs