Íslensk fjárfesting ehf. hagnaðist um 1,7 milljarða króna árið 2022 og hækkaði eigið fé félagsins úr 2,7 milljörðum í 4,5 milljarða, samkvæmt ársskýrslu fyrir árið 2022. Félagið er fjárfestingarfélag í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.
Í tilkynningu með skýrslunni segir að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri félagsins frá fyrra ári, en það ár gætti töluverðra áhrifa af COVID í ferðaþjónustufélögum samstæðunnar.
„Ferðaþjónustufélögin náðu að snúa við blaðinu og skila mjög góðu rekstrarári þrátt fyrir að áhrifa COVID hafi enn gætt í byrjun árs 2022. Heilt yfir voru þó áhrif faraldursins lítil á flest félög samstæðunnar á árinu,“ segir í tilkynningu.
Íslensk fjárfesting tapaði til að mynda tveimur milljörðum á árinu 2020 en tapið mátti að mestu leyti rekja til rekja til eignarhlutar í ferðaskrifstofunni Kilroy sem lækkaði úr 1,36 milljörðum í 230 milljónir króna á milli ára.
Rúmir 4,5 milljarðar í eigið fé
Í fyrra lauk félagið við við nokkur stór fasteignaþróunarverkefni og unnið að sölu á nokkrum þeirra. Hagnaður félagsins á árinu 2022 nam 1,709 milljörðum króna samanborið við taprekstur upp á 627 milljónir króna árið 2021.
Heildareignir félagsins í árslok námu 8,654 milljörðum og var eigið fé félagsins í árslok 4,503 milljarðar samanborið við 2,681 milljarða árið 2021.
„Félög innan samstæðunnar eru búin að ná fyrri styrk og eiginfjárhlutfall móðurfélagsins var um 52% í lok árs 2022. Eignir í félagsins í ferðaþjónustufyrirtækjunum Kilroy og RR hótel eru færðar á kostnaðarverði en stjórnendur telja að raunverulegt markaðsverð þeirra sé mun hærra,“ segir í tilkynningu.
Ferðaþjónusta, fasteignir og heilbrigði
Íslensk fjárfesting fjárfestir fyrst og fremst á fjórum meginsviðum: Ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, fasteignum og útivist og hreyfingu.
Kilroy, sem er stærsta félag samstæðunnar, er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn og rekur ferðaskrifstofur á átta mörkuðum í norðanverðri Evrópu. Helstu vörumerki félagsins eru KILROY, Benns, Jysk Rejsebureau, Winberg Travel og ISIC.
Þá hefur félagið fjárfest í heilbrigðisþjónustu og þá fyrst og fremst í öldrunarþjónustu í gegnum félagið Sóltún heilbrigðisþjónusta ehf. Helstu fjárfestingar þess eru: Öldungur hf. sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún. Sóltún öldrunarþjónusta sem rekur hjúkrunarheimilið Sólvang og Sóltún heilsusetur sem og Sólstöður sem er atvinnumiðlun fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Helstu fjárfestingar Íslenskrar fjárfestingar á sviði fasteigna eru í gegnum tvö félög; Íslenskar fasteignir ehf. og Fasteignafélag Íslenskrar fjárfestingar ehf.
Félagið rekur í dag þrjár verslanir undir merki Útilífs og eina undir merki The North Face.