Íslensk fjárfesting hagnaðist um 499 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við rúmlega 1,7 milljarða hagnað árið á undan. Í ársreikningi félagsins segir að á árinu væri enn að finna bókhaldsleg áhrif af tapi sem varð til á COVID-árunum.
Velta samstæðunnar var 37,3 milljarðar, sem er 11,7% aukning frá 2022, og eigið fé félagsins var 4.790 milljónir í lok árs samanborið við 4.506 milljónir árið áður.
Stjórnendur félagsins búast við áframhaldandi góðum rekstri á árinu og leggur stjórn til að greiddur verði út 246 milljóna króna arður til hluthafa á árinu.
Íslensk fjárfesting fjárfestir fyrst og fremst í fjórum meginsviðum: Ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, fasteignum og útivist og hreyfingu. Félagið er í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.
Kilroy, sem er stærsta félag samstæðunnar, er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn og rekur ferðaskrifstofur á átta mörkuðum í norðanverðri Evrópu. Helstu vörumerki félagsins eru KILROY, Benns, Jysk Rejsebureau, Winberg Travel og ISIC.
Stjórnendur félagsins telja að á árinu 2023 hafi sókn hafist fyrir alvöru í ferðaþjónustunni að nýju eftir erfiðleika í tengslum við heimsfaraldur.
Kilroy, starfar í átta löndum og er með skrifstofur á 20 stöðum í Evrópu undir fjórum vörumerkjum. Flóra hotels ehf. rekur m.a. Reykjavík Residence Hótel, ODDSSON hótel, Tower Suites og Port 9 vínbar.
Á sviði fasteigna er félagið eigandi Stafa ehf., fasteignafélags samstæðunnar, sem átti í árslok fasteignasafn að virði um 10 milljarða kr. sem mestmegnis tengist hótelrekstri.
Á sviði heilbrigðisþjónustu er félagið eigandi Sóltúns heilbrigðisþjónustu sem rekur meðal annars tvö hjúkrunarheimili og á sviði útivistar og hreyfingar eru reknar bæði verslanir Útilífs og The North Face á Íslandi. Hjá fyrirtækjum í meirihlutaeigu Íslenskrar fjárfestingar starfa rúmlega eitt þúsund starfsmenn.