Kynningarfundur var haldinn í morgun á Hilton Reykjavík Nordica undir heitinu íslensk-kínverska streymisvikan. Það voru kínverska sendiráðið á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við Íslandsstofu og Ísmola Marketing Group sem stóðu fyrir fundinum undir yfirskriftinni Rafræn viðskipti og streymiskynningar í Kína.

Fundurinn tengdist mikilli verslunarhátíð sem stendur nú yfir í Kína dagana 28. apríl til 12. maí. Hátíðin fer þar fram í landi í fimmta sinn og hefur hún það markmið að kynna á öllum helstu markaðstorgum í Kína ákveðnar vörur og vörumerki til að auka vitund og eftirspurn kínverskra neytenda eftir gæða vörum.

Ísland tekur nú þátt í ár í fyrsta sinn fyrir tilstilli kínverskra yfirvalda og á næstu dögum munu kínverskir áhrifavaldar meðal annars vinna með völdum íslenskum fyrirtækjum og kynna vörumerki þeirra á kínverskum samfélagsmiðlum.

Rafræn viðskipti og streymiskynningar í Kína
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
„Við höfum haft gott samband síðan við mynduðum stjórnmálatengsl fyrir 52 árum síðan"

He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, var meðal ræðumanna fundarins og lagði hann mikla áherslu á á varðveitingu viðskiptatengsla milli landana tveggja. Hann minnti á að tíu ár eru liðin frá því Ísland og Kína undirrituðu fríverslunarsamning sín á milli en Kína er stærsta viðskiptaland Íslands í Asíu. Ísland er einnig fyrsta evrópska þjóðin sem tekur þátt í verslunarhátíðinni og verða íslenskar vörur meðal vörur fjögurra landa sem sýndar verða í ár í Kína.

„Ég held að til að viðhalda góðum árangri í viðskiptum þá þurfum við líka að viðhalda góðu pólitísku umhverfi. Við vonum að þessi streymisvika muni hjálpa íslenskum fyrirtækjum að kynna sig á kínverskum markaði og að hún sýni líka að Kína er opið fyrir umheiminum. Það þarf samt að vera gott samband á milli þjóðanna og við höfum haft gott samband síðan við mynduðum stjórnmálatengsl fyrir 52 árum síðan,“ segir He.

Rafræn viðskipti og streymiskynningar í Kína
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Jude Zhu, kynningar- og rekstrarstjóri samfélagsmiðilsins Douyin, fór ítarlega út í það hvernig kínverskir samfélagsmiðlar virka en Douyin er kínverska útgáfan af TikTok. Bæði Douyin og TikTok eru í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance en TikTok er ekki fáanlegt í Kína. Að sama skapi eru síðurnar Google, Facebook, Instagram og Twitter bannaðar í Kína og þess í stað nota Kínverjar eigin útgáfu af þeim miðlum.

Douyin var stofnað árið 2016 og segir Jude að flest fyrirtæki í Kína notist við Douyin til að auglýsa vörur sínar. Hún segir marga möguleika vera til staðar fyrir íslensk fyrirtæki á miðlinum en daglegir notendur Douyin voru í kringum 730 milljónir árið 2022.