Stærsta innflutningssýning í Kína, CIIE – China International Import Expo, fer nú fram í borginni Shanghai. Þetta er í sjöunda sinn sem sýningin er haldin en þar hafa fyrirtæki frá tæplega hundrað löndum sett upp bása til að sýna vörur frá heimalandi sínu.
Sýningin er haldin í 1,5 milljón fermetra húsnæði, National Exhibition and Convention Center í Shanghai, sem er jafnframt stærsta samsetta bygging í heimi.
Kínverskir kaupmenn og gestir hafa undanfarna daga fengið tækifæri til að skoða feldkápur frá Pakistan, rauðvín frá Georgíu, kappakstursbíla frá Japan, lax frá Noregi ásamt vinsælum vörum frá Íslandi, svo eitthvað sé nefnt.
Sex íslensk fyrirtæki eru með bás á sýningunni í ár en það eru Kavita, Eimverk, Omnom, King Eider, Algalíf og Oceanix. Blaðamaður Viðskiptablaðsins er einnig staddur á sýningunni ásamt rúmlega 150 þúsund gestum.
Framlag Íslands er skipulagt af Íslandsstofu en íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í sýningunni frá árinu 2019 með góðum árangri. Á síðasta ári kynntu til að mynda 8 íslensk fyrirtæki vörur sínar undir merki Íslands.
Amy Pu, skipuleggjandi og fulltrúi Íslandsstofu á sýningunni, segir að það séu töluvert fleiri að skoða íslensku básana í ár heldur en í fyrra. Hún telur að fleiri íslensk fyrirtæki ættu að skoða þann möguleika að taka þátt.
„Ef íslensk fyrirtæki hafa áhuga á kínverska markaðnum þá er þetta staðurinn til að kynna sig, enda er þetta sýning á landsvísu og veitir þeim frábært tækifæri.“
Ágúst Sindri Karlsson, stjórnarformaður Kavita, er einnig viðstaddur sýninguna og tekur í sama streng. Hann hefur undanfarna daga fundað með tugum talsmanna og eigenda kínverskra fyrirtækja og segir að áhuginn á íslenskum vörum sé mjög mikill.
„Þetta er gríðarlega stór sýning og við erum búin að fá mjög hlýjar og góðar móttökur síðan við komum. Íslandsstofa mætti jafnvel setja meiri metnað í þessa sýningu því hér leynast tækifæri alls staðar.“