Rekstur Rammagerðarinnar jafnaði sig vel á síðasta ári og var um það bil á pari við rekstur ársins 2019 að sögn Bjarneyjar Harðardóttur, eiganda félagsins. Hún segir Rammagerðina hafa velt tæpum einum og hálfum milljarði króna í fyrra, en til samanburðar var velta félagsins rétt rúmlega það árið 2019.
Hún segir neikvæð áhrif faraldursins ekki endanlega hafa heyrt sögunni til fyrr en sumarið 2022. „Fyrstu þrjá mánuði ársins voru sóttvarnartakmarkanir enn í gildi og áhrifa faraldursins gætti alveg fram í júní í fyrra. Í ljósi þess var mjög gaman að sjá hvað viðsnúningurinn var hraður en það var mjög mikilvægt fyrir rekstur félagsins.“
Einskiptiskostnaður vegna faraldursins hafi þó litað afkomu síðasta árs. „Við greiddum niður ýmsar Covid skuldir í fyrra, svo sem leigu og annað.“
Illums Bolighus fyrirmyndin
Bjarney og eiginmaður hennar Helgi Rúnar Óskarsson eignuðust Rammagerðina árið 2011 um leið og þau gengu frá kaupum á 66° Norður ásamt fjárfestingasjóði. 66° Norður eignaðist Rammagerðina árið 2005 en félagið er eitt elsta og rótgrónasta fyrirtæki landsins, stofnað árið 1940. Bjarney kveðst strax hafa komið auga á tækifæri til að bæta rekstur Rammagerðarinnar. „Ég sá fyrir mér að verslunin gæti gegnt svipuðu hlutverki og Illums Bolighus gerir í Danmörku. Illums Bolighus er rotgróin hönnunarverslun sem hefur að mínu mati sett danska hönnun á mjög háan stall. Ég taldi að íslensk hönnun þyrfti á svipaðri verslun að halda sem gerði íslenskri hönnun hátt undir höfði. Stefnan hefur því alltaf verið að Rammagerðin selji einungis íslenska hönnun. Allt frá upphafi höfum við lagt áherslu á að eiga í nánum tengslum við íslenska hönnuði og listamenn, enda leggjum við mikla áherslu á að bjóða upp á það besta sem íslensk hönnun hefur upp á að bjóða hverju sinni. Til þess að geta gert það þurfum við að vera með puttann á púlsinum og fylgjast náið með því sem er að gerast í íslenskri hönnun og list hverju sinni.“
„Það er mín von og trú að íslensk hönnun geti komist á svipaðan stall og dönsk hönnun,“ segir Bjarney og ástríðan leynir sér ekki í orðum hennar. „Margir íbúar heimsins kannast við danska hönnun og hún hefur fyrir löngu orðið eitt af einkennismerkjum Danmerkur á alþjóðavísu. Íslensk hönnun hefur fulla burði til að gera slíkt hið sama og verða þar með mikilvæg útflutningsvara fyrir íslensku þjóðina. Dönum hefur tekist vel til með að markaðssetja danska hönnun enda eru danskar hönnunarvörur, rétt eins og þær íslensku, í heimsklassa. Það þarf kjark og þor til að koma íslenskri hönnun betur á framfæri á erlendri grundu en það er til mjög mikils að vinna fyrir samfélagið allt.“
Bjarney leggur áherslu á að það muni taka tíma að koma íslenskri hönnun á svipaðan stall og danskri hönnun. „Þetta mun taka tíma því við erum í raun enn að skilgreina hvernig íslensk hönnun, byggingarlist, gjafavara o.s.frv. lítur út. Við hjá Rammagerðinni höfum talað fyrir því að það sem skilgreini m.a. íslenska hönnun sé að hún er ekki fjöldaframleidd og því ekki fáanleg alls staðar. Íslensk hönnun er einstök og fágæt.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.