„Það var alltaf draumur hjá mér að stofna mitt eigið fatamerki,“ segir Edda Gunnlaugsdóttir, stofnandi fatamerkisins ddea. Edda segist alltaf hafa verið afar áhugasöm um tísku, en hún vann hjá tískublaðinu Glamour á árunum 2017-2019. Stuttu eftir að hún hætti þar fór hún að hugsa fyrir alvöru um að láta drauminn rætast.

Allar flíkur ddea eru framleiddar á Ítalíu og koma efnin bæði frá Ítalíu og Frakklandi. „Ég talaði við framleiðendur í öðrum löndum, en mér fannst Ítalir gera þetta einmitt eins og ég vildi. Öll framleiðsla fer fram á Ítalíu eins og áður segir, en hönnunin fer fram á Íslandi. „Ég hanna flíkurnar sjálf og vinn með mjög færum íslenskum klæðskera.“

ddea hóf formlega umsvif fyrr í mánuðinum með pop-up verslun á Uppi Bar, vínbar við Aðalstræti 12. Hún segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Flíkurnar okkar eru úr hágæðaefnum og eru ótrúlega þægilegar að klæðast.“ Hún bætir við að ddea eigi að vera klassískt merki, föt sem konur geti notað aftur og aftur. „ddea-flíkurnar eru ekki þannig að þær séu einungis notaðar einu sinni eða tvisvar og síðan geymdar í fataskápnum. Þær eru hugsaðar þannig að þær séu flottar núna en líka eftir tíu ár.“

Einstakar og klassískar flíkur

ddea er með netverslunina ddea.is og er ekki með neina hefðbundna verslun. Edda segist ekki sjá fyrir sér að opna hefðbundna verslun næstu misseri. „Mér fannst hins vegar mjög skemmtilegt að vera með pop-up verslun. Þá gefst tækifæri til að hitta fólk, að sýna því og tala um flíkurnar.“

ddea er jafnframt með fá eintök af hverri og einni flík, en vöruúrval ddea samanstendur eins og er af fjórum kjólum og þremur blússum, í mismunandi mynstri og lit. „Einn kjóll hjá mér kemur til að mynda bara út í þremur eintökum. Ég ætla algjörlega að halda í þetta og ég verð áfram með fá eintök af hverri flík. Það er líka gaman fyrir viðskiptavini að kaupa sér eitthvað sem þeir vita að er frekar einstakt, það eru ekki til hundrað eins flíkur. Ég framleiði líka aldrei neitt úr sama efni eða sama lit aftur.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.