Fyrirtækið Vonarskarð mun hefja rekstur í dag en verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði. Vonarskarð fékk leyfi frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til reksturs raforkumarkaðar í desember í fyrra.

Vonarskarð rekur raforkukauphöll Íslands þar sem fara fram viðskipti á heildsölumarkaði rafmagns. Fyrirtækið segir að markmið kauphallarinnar sé að auka gagnsæi og jafnræði í viðskiptum á markaðnum.

Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vonarskarðs, segir kauphöllinni ætlað að tryggja orkuöryggi fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Við búumst sérstaklega við því að fyrirtæki velji að tryggja sér rafmagn fram í tímann og setji sér innkaupastefnu þar sem þau kaupa til dæmis allt rafmagn sem þau þurfa næsta árið, helming af rafmagninu fyrir árið á eftir og svo 25% af þriðja árinu,“ segir Skúli.

Í tilkynningu segir jafnframt að fyrirtæki og stofnanir muni bjóðast til að kaupa rafmagn án útboðs. „Opinberum fyrirtækjum og stofnunum ber skylda til að bjóða út raforkukaup sín og því fylgir bæði kostnaður og fyrirhöfn. Með tilkomu kauphallarinnar býðst þessum aðilum að kaupa rafmagnið án útboðs því viðskiptavettvangur Vonarskarðs uppfyllir kröfur laga um skipulegan markað.“