Íslenska fjártæknifyrirtækið Handpoint hefur verið selt til bandaríska greiðslutæknifyrirtækisins Electronic Payments Inc. (EPI), sem er meðal stærstu færsluhirða í Bandaríkjunum. Tilkynnt var um kaupin í dag.
Handpoint hefur frá árinu 2014 þróað alhliða greiðsluþjónustu sem er í notkun í þremur heimsálfum og hundruð milljarða króna flæða um kerfi Handpoint á hverju ári, að því er segir í fréttatilkynningu.
„Þessi sala á félaginu er viðurkenning á okkar tæknilega forskoti á alþjóðlegum markaði,“ segir Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi.
„Ég vil þakka starfsfólkinu, meðstofnenda mínum, Þórði H. Þórarinssyni, fjárfestum sem hafa stutt félagið ötullega í gegnum tíðina, sem og öflugri stjórn - og þar sérstaklega Þórði Magnússyni, stjórnarformanni - fyrir einstakt framlag, góð ráð og dyggan stuðning í gegnum tíðina. Með sölunni tryggjum við að lausnir Handpoint komist í hendur 1.500 sölumanna í Bandaríkjunum og að félagið geti þannig vaxið enn hraðar með greiðari aðgangi að stærri markaði og dreifileið.“
Handpoint var stofnað á Íslandi og hefur frá 2014 þróað greiðslulausnir sem gera fyrirtækjum kleift að samþætta greiðslur beint í eigin hugbúnað og þjónustu. Lausnir Handpoint eru notaðar í þremur heimsálfum, meðal annars í verslunum, veitingastöðum, apótekum og hótelum.
„Þetta hefur verið skemmtileg vegferð á öflugum samkeppnismarkaði þar sem tækniþróun hefur verið hröð en Handpoint hefur alla tíð verið í fararbroddi í þeirri tækniþróun,“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Handpoint.
„Það er bæði dýrt og tímafrekt að byggja upp alþjóðlegt dreifikerfi. Þegar fyrirtæki hefur náð ákveðnu þroskastigi þarf annaðhvort að stækka með yfirtökum eða sameinast þeim sem þegar hafa dreifikerfið. Með þessum samruna fær Handpoint aðgang að öflugu dreifikerfi EPI og getur þannig vaxið enn hraðar.“

Handpoint rekur skrifstofur í fjórum löndum, en megnið af starfsfólkinu er á Spáni, og eru helstu markaðir félagsins Bandaríkin, Kanada, Bretland og Króatía. Lausnir félagsins eru m.a. í notkun á leikjum í NBA- og NFL-deildinni í Bandaríkjunum, á hótelum, veitingastöðum, apótekum og veslunarmiðstöðvum í meira en tíu Evrópulöndum.
Allir starfsmenn Handpoint munu halda áfram störfum hjá sameinuðu fyrirtæki.
EPI var stofnað árið 2000 í Bandaríkjunum og býður upp á fjölbreyttar greiðslulausnir fyrir bæði smáfyrirtæki og stórfyrirtæki. Lausnir fyrirtækisins ná yfir færsluhirðingu, posa, afgreiðslukerfi og gjafakortakerfi.