Mann­réttinda­dómstóll Evrópu komst að þeirri niður­stöðu að ís­lenska ríkið baut á Jóhannesi Baldurs­syni, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra markaðsvið­skipta hjá Glitni banka, í BK-44 málinu svo­kallaða.

Að mati dómstólsins rökstuddi Hæstiréttur Ís­lands ekki sak­fellingu Jóhannesar á fullnægjandi hátt.

Jóhannes og Birkir Kristins­son, fyrr­verandi starfs­maður einka­bankaþjónustu Glitnis, vísuðu fjórum málum til MDE vegna máls­með­ferðar og dóms í BK-44 málinu.

Í dómsniður­stöðum MDE segir að ríkið skuli greiða Jóhannesi 4.000 evrur í skaða­bætur og 8.000 evrur í máls­kostnað eða um 1,8 milljónir króna.

MDE hafnaði öðrum lið í kvörtunum Birkis og Jóhannesar sem snérist að ákvæði Mann­réttindasátt­mála Evrópu um sann­gjarna máls­með­ferð. Þeir töldu báðir að dómarinn hefði verið hlut­drægur.

Birkir taldi brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar en hann hafði haft réttarstöðu sakbornings, svo vitnis og loks sakbornings við meðferð málsins.

MDE taldi ríkið ekki hafa brotið á Birki þar sem Hæstiréttur virti að vettugi vitnisburð hans er hann hafði réttarstöðu vitnis.

Einn dómari skilaði sératkvæði í málinu líkt og einn dómari Hæstaréttar gerði á sínum tíma en sá dómari taldi rétt að vísa kæru á hendur Birki frá dómi.

For­saga málsins er sú að héraðs­dómur dæmdi fjóra fyrrum starfs­menn Glitnis í fangelsi árið 2014.

Fjór­menningarnir voru ákærðir fyrir um­boðs­svik, markaðsmis­notkun og brot á lögum um árs­reikninga í tengslum við 3,8 milljarða lán­veitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007.

Hæstiréttur mildaði dóm allra sak­borninga í málinu og voru Birkir Kristins­son og Elmar Svavars­son dæmdir til fjögurra ára fangelsis­vistar, meðan Jóhannes Baldurs­son fékk dóm sinn mildan í þrjú ár, meðan Magnús Arnar Arn­gríms­son hlaut dóm upp á tvö ár.