Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið baut á Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Glitni banka, í BK-44 málinu svokallaða.
Að mati dómstólsins rökstuddi Hæstiréttur Íslands ekki sakfellingu Jóhannesar á fullnægjandi hátt.
Jóhannes og Birkir Kristinsson, fyrrverandi starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, vísuðu fjórum málum til MDE vegna málsmeðferðar og dóms í BK-44 málinu.
Í dómsniðurstöðum MDE segir að ríkið skuli greiða Jóhannesi 4.000 evrur í skaðabætur og 8.000 evrur í málskostnað eða um 1,8 milljónir króna.
MDE hafnaði öðrum lið í kvörtunum Birkis og Jóhannesar sem snérist að ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um sanngjarna málsmeðferð. Þeir töldu báðir að dómarinn hefði verið hlutdrægur.
Birkir taldi brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar en hann hafði haft réttarstöðu sakbornings, svo vitnis og loks sakbornings við meðferð málsins.
MDE taldi ríkið ekki hafa brotið á Birki þar sem Hæstiréttur virti að vettugi vitnisburð hans er hann hafði réttarstöðu vitnis.
Einn dómari skilaði sératkvæði í málinu líkt og einn dómari Hæstaréttar gerði á sínum tíma en sá dómari taldi rétt að vísa kæru á hendur Birki frá dómi.
Forsaga málsins er sú að héraðsdómur dæmdi fjóra fyrrum starfsmenn Glitnis í fangelsi árið 2014.
Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007.
Hæstiréttur mildaði dóm allra sakborninga í málinu og voru Birkir Kristinsson og Elmar Svavarsson dæmdir til fjögurra ára fangelsisvistar, meðan Jóhannes Baldursson fékk dóm sinn mildan í þrjú ár, meðan Magnús Arnar Arngrímsson hlaut dóm upp á tvö ár.