Þrátt fyrir að hlaupið hafi töluvert líf í íslenska hlutabréfamarkaðinn á síðustu dögum samfara hækkunum á Marel sem rekja má til frétta af mögulegu yfirtökutilboði hefur vísitalan aðallistans í kauphöllinin lækkað um 15% á síðustu 12 mánuðum. Sé litið til annarra Evrópulanda sést að þetta er versta verðþróunin í Evrópu.

Næstmesta lækkunin var á finnska markaðnum sem hefur lækkað um 12% á sama tímabili. Nokkrir aðrir markaðir hafa einnig lækkað eins og belgíski, svissneski, breski og sá lúxemborgíski svo nokkur dæmi séu tekin. Lækkanir á þessum mörkuðum eru þó allar í eins stafa tölu.

Nokkrir markaðir hafa hækkað en danski markaðurinn hefur hækkað um 24%. Það má þó að töluverðu leyti rekja til mikillar hækkunar á danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk sem er orðið verðmætasta fyrirtæki í Evrópu. Spænski og ítalski markaðurinn hafa hækkað um 20%. Aðrir stórir markaðir eins og sá þýski og franski hafa hækkað á bilinu 8-11%.