Íslenskir fjármálastjórar mælast jákvæðastir meðal Evrópuþjóða gagnvart þróun tekna, EBITDA og fjárfestinga á næstu 12 mánuðum. Þá eru þeir meðal þeirra bjartsýnustu í Evrópu gagnvart ráðningu starfsfólks. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem var framkvæmd af Deloitte í september og náði til 1.150 fjármálastjóra fyrirtækja í 15 Evrópulöndum, þar á meðal á Íslandi. Könnunin var send til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.
Viðhorf íslenskra fjármálastjóra gagnvart þróun tekna á næstu tólf mánuðum mælist jákvæðast í Evrópu en nettóhlutfallið er jákvætt um 61%. Til samanburðar er hlutfallið einungis 18% meðal fjármálastjóra í Evrópu.
„Það kom mér skemmtilega á óvart að íslenskir fjármálastjórar eru bjartsýnastir í allri Evrópu. Á sama tíma og bjartsýni er að aukast hér, er hún að dragast saman hjá stjórnendum í Evrópu,“ segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte á Íslandi. „Mögulega eru íslenskir stjórnendur vanari sviptingum. Íslendingar eru áfallavanir og það getur vel verið að það þurfi einfaldlega meira til að slá okkur út af laginu. Auk þess eru markaðsaðstæður hér á landi skárri en víða annars staðar í Evrópu, meðal annars þar sem áhrif hækkandi orkuverðs eru minni.“
Sjá fram á aukinn starfsmannafjölda
Nettó viðhorf fjármálastjóra til ráðninga nýrra starfsmanna á næstu 12 mánuðum er jákvætt um 26%. Það er ekki furða að meirihluti fjármálastjóra sjái fram á að starfsmannafjöldi muni aukast á næstunni. Þriðjungur þeirra telur að skortur á hæfu starfsfólki hafi neikvæð áhrif á reksturinn.
„Viðhorf íslenskra fjármálastjóra til ráðninga fylgir allt annarri þróun en hjá stjórnendum í Evrópu. Í Evrópu er verðbólgan að bíta meira og þar eru stjórnendur frekar að hugsa um að fækka starfsfólki en að fjölga því. Íslenskir stjórnendur sjá fram á að ráða fleiri starfsmenn á næstu misserum, sem helst í hendur við umræður um skort á sérhæfðu vinnuafli á Íslandi.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.