Sænski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Johan Norberg hvetur íslenska frumkvöðla til að nýta sér þau tækifæri sem felast í alþjóðavæðingu og nýrri tækni.
Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann Ísland hafa alla burði til að verða leiðandi í því að aðlaga nýja tækni, svo sem gervigreind, að íslensku atvinnulífi.
„Ísland er svo lítið samfélag að það getur brugðist hratt við breytingum og nýjum tækifærum,“ segir Norberg. „Þið þurfið ekki að finna upp gervigreind, heldur vera besta landið í heimi í að nota hana.“
Norberg leggur áherslu á mikilvægi þess að frumkvöðlar séu óhræddir við að taka áhættu og prófa nýjar hugmyndir, jafnvel þótt þær virðist óhefðbundnar. Mistök séu hluti af ferlinu.
„Framkvæmið tilraunir, jafnvel þær brjáluðu, svo þið lærið hvað virkar og hvað ekki“ segir Norberg. „Ekki óttast mistök, því mistök eru gögn sem gefa ykkur tækifæri til að byrja upp á nýtt með gáfulegri nálgun,“ segir Norberg.
„Þið verðið að vera fyrirbyggjandi tortryggin og gera ykkur grein fyrir því að alltaf er einhver að reyna að stela markaðnum ykkar og gera viðskiptamódelið ykkar úrelt. Þess vegna verðið þið að komast á undan. Hafið ekki áhyggjur af því þó að þið vitið ekki hvernig – það kemur í ljós ef þið haldið áfram að vera virk og haldið huganum opnum,“ segir Norberg.
Í þessum hröðu tæknibreytingum telur Norberg einnig mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að hafa opinn huga gagnvart nýsköpun og alþjóðlegum viðskiptatækifærum.
Hnattvæðingin er ekki að deyja, segir Norberg. Hún er einfaldlega að breytast og fyrir vel menntað vinnuafl eins og á Íslandi felast óteljandi tækifæri í hugverkum, þjónustu og alþjóðlegri samvinnu.