Íslenska fjártæknifyrirtækið YAY, sem á og rekur YAY gjafabréfakerfið og sá meðal annars um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið, hefur gert samkomulag við kanadíska fyrirtækið SEP (Smart Everyday People) um dreifingu bótagreiðslna.

Samkomulagið snýst um dreifingu á svokölluðum HSA-greiðslum (e. Health Spending Accounts), sem eru fjármunir sem eru hluti af launum starfsmanna og má nota til að greiða fyrir læknis- og heilsuþjónustu.

HSA-greiðslur eru skattfrjálsar og njóta mikilla vinsælda í Norður-Ameríku.

„Við höfum síðasta eitt og hálft ár unnið í Kanada, lært mikið og þurft að bregðast við ýmsum áskorunum. En nú er ljóst að varan okkar er að fá góðar viðtökur og við getum nú einbeitt okkur að vexti,“ segir Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY.

Núverandi kerfi á markaðnum byggja flest á greiðslum þar sem starfsmaður greiðir fyrir þjónustu úr eigin vasa, fær kvittun og síðan endurgreiðslu, svipað og hjá stéttarfélögum á Íslandi.

„Með YAY-kerfinu er hins vegar auðvelt að skilgreina hvar notandinn getur notað inneignir sínar, hvort sem það eru gjafabréf eða aðrar inneignir. Í HSA greiðir atvinnurekandi inn á HSA-reikning og YAY sér til þess að inneignin nýtist eingöngu í læknis- og heilsuþjónustu,“ segir jafnframt í tilkynningu.