Stjórn SORPU hefur ákveðið að ganga til samninga við sænska fyrirtækið Stena Recycling AB um móttöku á brennanlegum úrgangi frá höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að hefja útflutning á brennanlegum úrgangi til Svíþjóðar í haust.
Í tilkynningu frá Sorpu segir að með þessu verði íslenskur úrgangur nýttur til orkuframleiðslu í Svíþjóð í stað þess að hann sé urðaður á Íslandi.
Tilboð Stena mun einnig hafa verið 35% undir kostnaðaráætlun SORPU fyrir útboðið.
Gert er ráð fyrir að flytja út tæplega 43.000 tonn af brennanlegum úrgangi árlega til brennslu og segir SORPA að þegar útflutningur hefst mun urðun í Álfsnesi dragast saman um 65% á ári miðað við árið 2022.