Íslenska nýsköpunarfyrirtækið International Carbon Registry (ICR), ásamt systurfyrirtækinu CarbonRegistry.com, tekur þátt í þróun og prófun nýrrar blockchain-lausnar fyrir kolefnismarkaði, í samstarfi við bandaríska bankann J.P. Morgan og alþjóðlega loftslagssérfræðinga.

Lausnin er þróuð í samstarfi við Kinexys Digital Assets, táknvæðingarkerfi J.P. Morgan, og miðar að því að færa kolefniseiningar þangað og nýta innviði bankans til þess að auka viðskipti með skilvirkari ferlum og tengslum við alþjóðlega markaðsinnviði, að því er segir í tilkynningu.

Þannig eigi að skapast betri tenging milli skráningarkerfa og fjármálageirans, þar sem umsýsla kolefniseininga fer fram innan sameiginlegs vistkerfis.

ICR og CarbonRegistry.com eru með fyrstu aðilum til að ljúka prófunum á tækninni en aðrir aðilar í prófunum eru EcoRegistry, S&P Global Commodity Insights.

„Við erum stolt af því að vera í fararbroddi þegar kemur að nýrri tækni fyrir kolefnismarkaði,“ segir Óli Torfason, framkvæmdastjóri CarbonRegistry.com.

„Við viljum byggja upp traust og gagnsæi í þessum markaði og vorum þau fyrstu í heiminum til að gefa út kolefniseiningar beint á opna bálkakeðju. Þetta er ekki bara einhver ný tækni, þetta er grundvallarbreyting á því hvernig eignir eru skráðar og viðskiptum háttað,“ segir Óli.

„Það sem margir átta sig ekki á enn þá er að kolefniseiningar eru kannski fyrsti raunverulegi eignaflokkurinn sem er frumskráður á bálkakeðju. Flestar aðrar eignir sem fólk er að ‘táknvæða’ í dag - fasteignir, hlutabréf, jafnvel listaverk - eru í raun bara afrit eða afleiður af einhverju sem er ennþá frumskráð í gömlu kerfunum, undir öðrum reglum, í öðrum gagnagrunnum. En kolefniseiningarnar okkar eru ekki slíkar afleiður, þær verða til og eru skráðar beint í nýju kerfunum, frá grunni.“

Í tilefni þessa samstarfs gaf J.P. Morgan út skýrsluna “Carbon Markets Reimagined” sem fjallar um hvernig stafrænar eignir og blockchain-tækni geta hjálpað til við að leysa lykiláskoranir í kolefnismarkaða með bættu gagnsæi, stöðlun og tengingum við fjármálainnviði.

ICR og CarbonRegistry.com segja þátttöku í þessu verkefni undirstrika leiðandi hlutverk Íslands í þróun stafrænnar kolefnisskráningar og opna ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir í þróun loftslagslausna.