Stjórnir VÍS, Fossa fjár­festinga­banka, SIV eignastýringar, Ís­lenskra verðbréfa (ÍV) og ÍV-sjóða hafa samþykkt til­högun á fyrir­hugaðri samþættingu ÍV og ÍV-sjóða inn í sam­stæðu Skaga.

Sam­kvæmt til­kynningu til kaup­hallarinnar er fyrir­hugað að samþætta starf­semi ÍV við starf­semi Fossa með þeim hætti að ÍV verður skipt upp og hluti þess sam­einaður Fossum. Hins vegar er fyrir­hugað að sam­eina ÍVS og SIV þar sem ÍVS er yfir­tökufélag, en sam­einað félag mun starfa undir heitinu Ís­lensk verðbréf.

Í báðum til­vikum munu skiptin og sam­runar miðast við 1. janúar 2025 en fyrir­vari er um samþykki fjár­mála­eftir­lits Seðla­banka Ís­lands og stað­festingu fyrir­tækja­skrár Skattsins.

Sam­hliða þessu hefur verið gengið frá sam­komu­lagi um kauprétt Skaga (VÍS og Fossar) á alls 14,40% hlut í sam­einuðu félagi SIV og ÍVS af minni­hluta­eig­endum sam­einaðs félags.

Kaupréttar­sam­komu­lagið gerir ráð fyrir mögu­legri nýtingu kaupréttar í upp­hafi ársins 2026.

Verði kauprétturinn nýttur af hálfu Skaga, er gert ráð fyrir að selj­endur hlutanna fái kaup­verðið greitt með hluta­bréfum í Skaga.

Jafn­framt er skil­yrði um sölu­bann selj­enda á hluta­bréfum sem þeir fá af­hent í Skaga og að sölu­bann gildi til tveggja ára. Sam­komu­lagið er gert með fyrir­vara um samþykki hlut­hafa fyrir út­gáfu nýs hluta­fjár í Skaga til að mæta kaup­verðinu.

„Með sam­einingu SIV eignastýringar og ÍV-sjóða undir heitinu Ís­lensk verðbréf verður til öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með hátt í 200 milljarða króna í stýringu. Arnór Gunnars­son verður fram­kvæmda­stjóri Ís­lenskra verðbréfa og Jón Helgi Péturs­son rekstrar­stjóri. Sam­einað félag mun byggja á öflugu teymi sjóð­stjóra frá SIV og ÍV-sjóðum með ára­tuga reynslu í fjár­festingum, en starf­semi félagsins skiptist í eigna- og sjóðastýringu,” segir í Kaup­hallar­til­kynningu.

Fjár­festinga­safn VÍS trygginga verður áfram í stýringu hjá eignastýringar­sviði félagsins sem Arnór mun veita for­stöðu en auk þess eru sér­greind söfn fyrir fag­fjár­festa og stofnana­fjár­festa í stýringu félagsins.

Þor­kell Magnús­son mun veita sjóðastýringu for­stöðu en félagið mun bjóða upp á fjöl­breytta val­kosti opinna og lokaðra sjóða fyrir al­menna fjár­festa jafnt og fag­fjár­festa.

Í til­kynningu segir að Ís­lensk verðbréf stefni á frekari vöxt á inn­lendum eignastýringar­markaði með hags­muni við­skipta­vina og langtímaárangur þeirra að leiðar­ljósi.

Skagi, móðurfélag VÍS, hefur undir­ritað kaup­samning við hlut­hafa Ís­lenskra verðbréfa hf. (ÍV) um kaup Skaga á 97,07% hluta­fjár í félaginu fyrir 1.598 milljónir króna í mars á þessu ári.

Ís­lensk verðbréf, sem var stofnað árið 1987, er eitt elsta starfandi fjár­mála­fyrir­tæki landsins. Félagið býður upp á þjónustu á sviði markaðsvið­skipta, eigna- og sjóðastýringar og var með 96 milljarða króna í stýringu um síðustu áramót.

Alls voru um 4.000 við­skipta­vinir með fjár­muni í eignastýringu og vörslu hjá Ís­lenskum verðbréfum í lok árs 2023.