Ístak, eitt stærsta verktakafélag landsins, hagnaðist um 1,8 milljarða króna á síðasta reikningsári, sem lauk 30. september 2024. Til samanburðar hagnaðist félagið um 537 milljónir árið áður.
Stjórn félagsins leggur til að 1,6 milljarðar króna verði greiddir í arð á árinu 2025 samkvæmt nýbirtum ársreikningi.
Velta Ístaks jókst um 14% milli ára og nam tæplega 30,9 milljörðum króna á síðasta reikningsári. Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins jókst úr 776 milljónum í 2,3 milljarða króna milli ára. Í ársreikningi félagsins segir að verkefnastaða þess sé mjög góð.
„Markaður fyrirtækisins á Íslandi hefur sveiflast mikið og velta fyrirtækisins hefur oft fylgt þeim sveiflum. Þetta hefur komið berlega í ljós á síðustu árum og útskýrir að mestu þá miklu veltuaukningu sem hefur orðið á milli ára. Á næstu 3-5 árum væntum við minni sveiflna og veltan gæti staðið í stað, minnkað eða stigið í jafnari skrefum,“ segir stjórn fyrirtækisins.
Fjöldi ársverka fóru úr 507 í 523 milli ára. Laun og launatengd gjöld jukust úr tæplega 6,6 milljörðum í hátt í 7,5 milljarða króna. Stjórn félagsins segir launahækkanir síðustu ára og ásókn í starfsfólk hafa valdið launaskriði á markaðnum umfram umsamdar launahækkanir.
Þá kemur fram að erfiðar aðstæður á Grænlandi samhliða krefjandi ytri aðstæðum hafi haft töluverð áhrif á stórt verkefni fyrirtækisins á Grænlandi.
Eignir Ístaks voru bókfærðar á 9,7 milljarða króna í lok september síðastliðnum og eigið fé var um 4,8 milljarðar. Ístak er í eigu danska verktakafyrirtækisins Per Aarsleff A/S.