Ítalska persónuverndarstofnunin hefur sektað OpenAI, framleiðanda ChatGPT, um 15 milljónir evra fyrir brot gegn gagnsæi og upplýsingaskyldum gagnvart notendum.

Rannsóknin, sem hófst árið 2023, leiddi einnig að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið væri ekki með fullnægjandi kerfi til að koma í veg fyrir að börn yngri en 13 ára kæmust yfir óviðeigandi efni sem búið væri til með gervigreind.

Ítalska stofnunin, sem ber heitið Garante, er ein af þeim ströngustu innan Evrópusambandsins þegar kemur að notkun gervigreindar. Á síðasta ári bannaði hún ChatGPT tímabundið vegna meintra brota á persónuverndarreglum ESB.

OpenAI mun áfrýja dóminum og segir að sektin sé rúmlega tuttugu sinnum hærri en tekjur fyrirtækisins á Ítalíu yfir umrætt tímabil.

Persónuverndarstofnunin segir hins vegar að 15 milljóna evra sektin sé reiknuð út með hliðsjón af samvinnustefnu OpenAi, sem bendir til þess að sektin hefði getað verið mun hærri.