Stjórnvöld á Ítalíu hafa opinberað tillögu um að heimila sveitarfélögum að hækka gistináttaskatt upp í allt að 25 evrur, eða allt að 3.800 íslenskar krónur, á nótt fyrir dýrustu hótelherbergin. Hótel- og ferðaiðnaðurinn gagnrýna tillögurnar harðlega. Financial Times greinir frá.

Með hinni áformuðu hækkun á gistináttaskattinum ætla ítölsk stjórnvöld að auka tekjur og styðja borgir sem standa illa fjárhagslega. Auk þess er breytingunum ætlað að mæta gagnrýnisröddum um offlæði ferðamanna.

Ítölskum borgum er heimilt í dag að leggja á gistináttaskatt og er hann yfirleitt á bilinu 1-5 evrur, eða 150-765 krónur, á mann á nótt. Fjárhæðin fer eftir fjölda stjarna sem viðkomandi hótel eða gistihús er með.

Tillaga ríkisstjórnarinnar heimilar borgum að hækka þak gistináttaskattsins úr 5 evrum á mann á nótt fyrir herbergi sem kostar undir 100 evrur, 100 evrur á nótt fyrir herbergi sem kostar á bilinu 100-400 evrur, 15 evrur fyrir herbergi á bilinu 400-750 evrur, og 25 evrur fyrir herbergi sem kosta yfir 750 evrur nóttin.

Í umfjöllun FT kemur fram að árið 2019 hafi skatttekjur 1.200 sveitarfélaga af ferðaþjónustu numið samtals 470 milljónum evra, eða um 72 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Áætlað er að þessar skatttekjur hafi numið 775 milljónum evra í fyrra og er aukningin rakin til ákvörðunar ríkisstjórnar Meloni um að heimila vinsælum ferðamannaborgum að hækka gistináttaskattinn upp í allt að 10 evrur á mann á nótt.

Tillagan felur einnig í sér að sveitarfélög mega nýta tekjur af þessari skattheimtu til að fjármagna sorphreinsun, sem er ekki til þess fallið að kæta ferðaþjónustugeirann.

Haft er eftir Marina Lalli, formanni Federturismo ferðaþjónustusamtökunum, að margar borgir nýti þegar skatta af ferðamönnum „ólöglega“ til að ná jafnvægi í almennum rekstri. Núverandi löggjöf kveður á um að borgir þurfi að nýta skatttekjur af ferðaþjónustu í þjónustu og innviði í þágu ferðamanna.

Ferðamálaráðuneytið segist stefna á að ræða við helstu hagaðila í september varðandi hinar fyrirhuguðu skattabreytingar í ferðaþjónustugeiranum.

Ítalski ferðaþjónustugeirinn hefur náð sér aftur á strik eftir Covid-faraldurinn. Áætlað er að um 65 milljónir erlendra ferðamanna hafi ferðast til Ítalíu fyrra sem er sambærilegur fjöldi og fyrir faraldurinn.