Sýn hefur gert samning við Viaplay sem felur í sér einkarétt á sölu Viaplay með vörum Vodafone og Stöðvar 2 og tekur samningurinn gildi strax í ágúst, þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum tveimur.
Stöð 2 Sport mun taka við sýningarrétti á öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu til næstu ára og taka að sér alla framleiðslu á umfjöllun og umgjörð í kringum leikina.
Fyrstu leikirnir sem falla undir samstarfið verða leikir Íslands í undankeppni EM 2024 gegn Lúxemborg ytra þann 8. september og Bosníu og Hersegóvínu á Laugardalsvelli þremur dögum síðar.
Leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í streymi hjá Viaplay.
Fórmúla 1 og Meistaradeild Evrópu
„Stöð 2 Sport mun taka yfir framleiðslu á allri innlendri dagskrárgerð tengdri því íþróttaefni sem Viaplay hefur upp á að bjóða á Íslandi svo sem Meistaradeild Evrópu, Formúlu 1, Championship[1]deildinni og Carabao-bikarnum í Englandi, þýska fótboltanum, þýska handboltanum, landsleikjum í undankeppni EM karla, stórmótum í pílukasti og meira til. Samhliða þessum breytingum verður ný línuleg sjónvarpsrás kynnt til leiks til að hámarka upplifun áskrifenda á íþróttaefni Viaplay,“ segir í tilkynningunni.
„Það er virkilega ánægjulegt að við höfum náð þessu tímamóta samkomulagi við streymisveituna Viaplay. Við fögnum því að leikir karlalandsliðs Íslands séu komnir heim á Stöð 2 Sport. Við leggjum áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar fjölbreytt framboð af bæði innlendri og erlendri afþreyingu og er Viaplay með íþrótta- og sjónvarpsefni sem að fellur vel að vöruframboði Vodafone og Stöðvar 2. Samstarfið undirstrikar styrkleika okkar í að mæta þörfum viðskiptavina hvað varðar framúrskarandi upplifun, persónulegri þjónustu og betra aðgengi að hágæða sjónvarpsefni. Með samningnum við Viaplay munum við geta boðið viðskiptavinum Vodafone internet, farsíma ásamt meiri fjölbreytni í afþreyingu og íþróttaefni. Við hlökkum til samstarfsins og til þess að kynna betur þjónustuna fyrir viðskiptavinum,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu.
„Undanfarin þrjú ár höfum við fest Viaplay í sessi sem efnisveitu á Íslandi, sérstaklega með tilliti til beinna útsendinga á íþróttaviðburðum. Við teljum það náttúrulegt skref í framhaldinu að hefja samstarf við fremsta fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki landsins. Sameining íþróttarétta, íþróttaframleiðslu og það að hafa Viaplay sem viðbót við áskriftarpakka Vodafone og Stöðvar 2 mun auka dreifingu veitunnar til muna og teljum við að samstarfið mun skila enn meiri ávinningi af fjárfestingum okkar til þessa,” segir Mikael Olsson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Viaplay Group í tilkynningu.