Ítalskir veitingastaðir, sérstaklega pítsustaðir, hafa líklega aldrei verið vinsælli á Íslandi. Nýlega hafa fjölmargir slíkir staðir verið opnaðir. Jafnframt er annar eins fjöldi veitingastaða sem boðar komu sína innan tíðar.

Jói Fel opnaði nýlega veitingastaðinn Felino, sem er í Listhúsinu í Laugardal. Staðurinn er með ítölsku ívafi, en í samtali við Viðskiptablaðið segir Jói Fel viðtökurnar hafa verið mun betri en hann bjóst við og segir varla hægt að opna veitingastað í dag án þess að bjóða upp á ítalskar pítsur. „Pítsurnar mínar eru byggðar á pítsubotni sem enginn annar er með. Þetta er 20 ára gamalt súr og deig sem ég hannaði sjálfur. Án þess að ætla að alhæfa, þá held ég að þetta sé eini pítsubotn á Íslandi með engu geri eða aukaefnum."

BakaBaka er annar nýr veitingastaður sem býður upp á pítsur að ítölskum sið, en staðurinn er bakarí og kaffihús á daginn. BakaBaka er við Bankastræti 2 og rekstraraðili staðarins er Ágúst Fannar Einþórsson, stofnandi bakarískeðjunnar Brauð & Co.

Ítalski veitingastaðurinn Grazie Trattoria verður opnaður á Hverfisgötu laugardaginn næstkomandi, 2. apríl. Rekstraraðili staðarins er Jón Arnar Guðbrandsson veitingamaður. Það vakti athygli þegar Jón keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem hann auglýsti eftir starfsfólki eldra en 60 ára.

Á vormánuðum ætla hjónin Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson knattspyrnumaður að opna pítsustaðinn OLIFA - La Madre Pizza á Suðurlandsbraut í samstarfi við Gleðipinna. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í nóvember í fyrra, en þau hjónin hafa búið á Ítalíu í nokkurn tíma og stofnuðu OLIFA fyrirtækið með Francesco Allegrini, einum virtasta vínframleiðanda Ítalíu.

Að lokum stefna Hrefna Sætran og félagar í Grillmarkaðnum á að opna ítalskan veitingastað og bar á næstunni, sem verður staðsettur í mathöll. Óvíst er hvenær staðurinn opnar og þá í hvaða mathöll.

Ráðagerði opni í lok apríl

Gísli Björnsson, Jón Ágúst Hreinsson og Viktor Már Kristjánsson opna ítalskan veitingastað í Ráðagerði á Seltjarnarnesi nú í vor. Þeir eru vanir veitingamenn, en Gísli og Jón hafa sterk tengsl við Nesið. Gísli segir í samtali við Viðskiptablaðið að ferlið sé á lokametrunum og stefnt sé að opnun í lok apríl. „Við erum að bíða eftir því að allir eftirlitsaðilar veiti leyfi til reksturs veitingahússins. Við stefnum þó ótrauðir á að opna í lok apríl."

Staðurinn mun bjóða upp á mat og drykk með ítölsku ívafi og segir Gísli að staðurinn komi til með að verða opinn frá 9 til 23 á kvöldin. Hann segir staðinn vera hugsaðan sem hverfisstað fyrir Nesið, en muni jafnframt þjóna nærliggjandi byggðum. „Við höfum mikla ástríðu fyrir því að gera svæðið hér á Seltjarnarnesi skemmtilegra og nýta þetta fallega bæjarstæði."

Nánar er fjallað um ítalska veitingastaði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .