Samtök atvinnulífsins (SA) og breiðfylking stéttarfélaga hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau hvetja ríki, sveitarfélög og fyrirtæki til þess að leggjast á eitt við að tryggja stöðugleika á komandi misserum.
„Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga skora sameiginlega á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki landsins til þess að styðja við markmið kjarasamninga með því að halda aftur af gjaldskrár-, skatta- og verðhækkunum eins og þeim er frekast unnt, og enn fremur lágmarka launaskrið og gæta vel að skilyrðum til verðmætasköpunar á Íslandi.“
Í yfirlýsingunni segir að Stöðugleikasamningarnir svokölluðu, sem undirritaðir voru á fyrri árshelmingi 2024, hafi haft það markmið að stuðla að minni verðbólgu og lækkun vaxta.
Samstaða á meðal fyrirtækja, stjórnvalda og almennings hafi þegar skilað því að verðbólga hafi hjaðnað og séu vextir þegar byrjaðir að lækka.
„Það blasir við að mesti ávinningur heimila, launafólks og fyrirtækja er að tryggja verðstöðugleika sem tryggir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.“