Eftir átta mánaða leit hefur danski fjár­festingar­bankinn Saxo Bank fundið nýjan meiri­hluta­eig­anda.

Það er sviss­neski einka­bankinn J. Saf­ra Sarasin Group, sem hefur samþykkt að kaupa um 70% hlut í Saxo Bank, samkvæmt Børsen.

Kaup­verðið nemur 1,12 milljörðum evra eða um 164,5 milljörðum ís­lenskra króna, sem metur virði bankans í heild á 11,94 milljarða danskra króna eða um 235 milljarða ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Geely og Manda­tum selja sinn hlut

Sænski bíla­iðnaðar­risinn Zhejiang Geely Holding Group, sem hefur átt 49,9% hlut í Saxo Bank í gegnum dóttur­félagið Geely Financials Den­mark, og finnska fjár­mála­fyrir­tækið Manda­tum Group, sem hefur átt 19,8%, hafa selt hluti sína í bankanum.

Manda­tum greindi frá því í sér­stakri til­kynningu að það hefði selt sinn hlut fyrir 2,4 milljarða danskra króna eða um 47 milljarða ís­lenskra króna.

Kim Fournais áfram for­stjóri

Kim Fournais, stofnandi og for­stjóri Saxo Bank, mun halda sínum 28% eignar­hlut og áfram gegna hlut­verki for­stjóra. Hann fagnar við­skiptunum og segir þau marka tíma­mót fyrir bankann:

„Fyrir Saxo, starfs­fólk, hlut­hafa, við­skipta­vini og sam­starfsaðila er þetta stór áfangi. Við höfum unnið mark­visst að því að bæta bankann og styrkja hann til framtíðar,“ sagði Fournais í yfir­lýsingu.

J. Saf­ra Sarasin sér vaxtartækifæri í Saxo Bank

J. Saf­ra Sarasin er einka­banki með höfuðstöðvar í Basel í Sviss og er hluti af stærri fjár­mála­sam­stæðu Saf­ra Group, sem rekur fjöl­breytta fjár­málaþjónustu um allan heim.

Bankinn er með um 247 milljarða dala í eignastýringu, sem er meira en tvöfalt meira en Saxo Bank, sem hefur 118 milljarða dala í eignastýringu.

Með kaupunum hyggst J. Saf­ra Sarasin nýta tækni Saxo Bank til að efla sína eigin þjónustu og auka alþjóð­leg um­svif sín. „Þessi við­skipti undir­strika stefnu okkar um að fjár­festa í nýstár­legum og fjöl­breyttum fjár­mála­fyrir­tækjum,“ sagði Daniel Bel­fer, for­stjóri J. Saf­ra Sarasin, í yfir­lýsingu.

Mikill vöxtur á skömmum tíma

Saxo Bank, sem var stofnaður árið 1992 af Kim Fournais og Lars Seier Christen­sen, hefur þróast í alþjóð­legan leið­toga í net­við­skiptum og fjár­festingarþjónustu. Bankinn býður upp á fjártækni­lausnir fyrir banka, verðbréfa­miðlara og fjár­festa um allan heim.

Á dögunum til­kynnti Saxo Bank um metárangur í rekstri, með hagnað upp á 1 milljarð danskra króna árið 2024.

Fjöldi við­skipta­vina bankans hefur aukist í 1,29 milljónir, og bankinn á von á enn betri af­komu á

Kaup J. Saf­ra Sarasin á Saxo Bank eru háð samþykki danska og sviss­neska fjár­mála­eftir­litsins. Gert er ráð fyrir að kaupin klárist fyrir árs­lok 2025.