Nýlega fór fram fundur milli Jack Ma, stofnanda Alibaba, og Xi Jinping forseta Kína en fundurinn hefur ýtt undir spennu og vangaveltur um framtíð kínverska fjármálageirans. Viðbrögðin hafa verið mjög góð en gengi Alibaba hefur nú hækkað um 8%.

Jack Ma hefur ekki verið sýnilegur undanfarin ár en auðjöfurinn þurfti að stíga til hliðar árið 2020 eftir að hafa opinberlega gagnrýnt fjármálastefnu kínverskra stjórnvalda.

Sérfræðingar hafa verið að velta fyrir sér mikilvægi fundarins og hafa samfélagsmiðlar einnig logað með vangaveltum um að samband eins ríkasta manns Kína við stjórnvöld sé nú á góðum stað.

Fyrirtæki í Kína hafa undanfarin ár þurft að glíma við mikið harðræði af hálfu stjórnvalda en ríkisstjórnin þar hefur beitt sér sérstaklega gegn tæknigeiranum þar í landi. Reglur stjórnvalda kostuðu jafnframt kínversk tæknifyrirtæki milljarða dala.

Jack Ma stofnaði Alibaba í íbúðinni sinni fyrir meira en tveimur áratugum síðan. Hann hafði engan bakgrunn í tölvumálum og kenndi sjálfum sér ensku með því að bjóðast til að sýna erlendum ferðamönnum í heimaborginni sinni, Hangzhou, í skiptum fyrir spjall á ensku.

Þegar hann mætti til New York í von um að skrá Alibaba sýndu fjárfestar honum ekki mikið traust og sögðu að hann ætti engan möguleika á að keppa við fyrirtæki eins og eBay. Ma svaraði þessu með því að segja að eBay væri hákarl í hafinu en Alibaba væri krókódíll í Yangtze-ánni.

„Ef krókódíllinn reynir að berjast við hákarlinn í hafinu þá mun hann vissulega tapa, en ef hákarlinn syndir inn í Yangtze-ánna mun hann svo sannarlega ekki eiga sjö dagana sæla.“