Hið opinbera á ríflega 30% hlut í 500 stærstu fyrirtækjum landsins, talsvert meira en lífeyrissjóðir og erlendir aðilar, samkvæmt greiningu á Viðskiptablaðsins sem fjallað er um í blaði vikunnar.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að það hafi komið sér á óvart hvað opinbert eignarhald sé í raun mikið á Íslandi. Hann segir það einkennandi fyrir hið opinbera að eignarhaldið sé þröngt og ríki og sveitafélög deili sjaldan eignarhaldi með öðrum.

„Í Noregi hafa stjórnvöld gengið nokkuð langt í því að skrá fyrirtæki í opinberri eigu án þess að selja þau að fullu. Ef marka má umræðuna hér á landi jaðrar það við landráð að leggja til skráningu hluta í Landsvirkjun á markað svo dæmi sé tekið.“

Munur sé á einka- og markaðsvæðingu þar sem ekki er gerð sú krafa í seinna tilvikinu að ríkið selji frá sér meirihluta. Hann bendir þannig á að þótt opinbert eignarhald á heimsvísu sé gjarnan bundið við mikilvæga innviði og auðlindatengda starfsemi þá hafi norska ríkið ákveðið á sínum tíma að skrá olíuauðlindina og vatnsaflið á markað.

„Lífeyrissjóðum er skylt að fjárfesta þorra eigna í skráðum eignum og ef íslenski markaðurinn endurspeglar ekki viðskiptahagkerfið í heild, er hætt við því að eignasafnið geri það ekki heldur. Getan til að dreifa áhættunni og eignarhaldinu með öðrum er minni fyrir vikið og kemur orðið í veg fyrir að lífeyrissjóðir geti fjárfest í innviðum svo dæmi sé tekið,“ segir Ólafur.

„Þá leiðir það til þess að eignarhald þverast yfir samkeppnismarkaði sem getur valdið umboðsvanda. Það er rík umboðsskylda sem fylgir því að fara með ævisparnað almennings og stundum getur það valdið umboðsvanda án þess að leiða endilega til hagsmunaárekstra.“

Skuldsett fjárfesting hins opinbera þyngsta leiðin

Í viðtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar áætlaði Ólafur að innviðaskuld hér á landi nálgist þúsund milljarða króna. Hann segir að leysa megi þá innviðaskuld sem hefur safnast upp á marga vegu en þyngsta leiðin væri skuldsett fjárfesting hins opinbera með frekari aukningu á eignarhaldi þess í viðskiptahagkerfinu.

„Það þarf að opna þessa umræðu í stað þess að gera þá stóru stærri svo ekki sé minnst á þá stöðu þegar fyrirtæki í eigu hins opinbera eiga í samkeppni við önnur félög á samkeppnismarkaði,“ segir Ólafur og tekur þar raforkumarkaðinn sem dæmi.

Hann bætir við að HS Orka, sem er í jafnri eigu lífeyrissjóða og bresks innviðasjóðs, sé mögulega með um 7% markaðshlutdeild.

„Þegar kemur að orkuinnviðum virðist það skipta meira máli hver á fyrirtækið en hvort þörf er á frekari orkuöflun.“

Hann segir að því fylgi líka umboðsvandi þegar stjórnsýslan leggur blessun sína yfir stórframkvæmdir ef mótaðilinn er í opinberi eigu.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um málið í Viðskiptablaði vikunnar.