Norræna fjárfestingarfélagið Nordic Ignite, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpun á hugmyndastigi (e. pre-seed), opnaði á dögunum fyrir umsóknir sprotafyrirtækja um fjármögnun. Nordic Ignite stefnir að því að sækja ríflega 2 milljarða króna á næstu 2-3 árum og er þegar komið með 64 englafjárfesta á bak við sig en jafnt kynjahlutfall er meðal þeirra.
„Ég er ótrúlega stolt af því. Ég held að þetta sé einhvers konar einsdæmi, í það minnsta hér á landi og þótt viða væri leitað. Við erum með rosalega gott net af fólki sem hefur alveg gríðarlegan áhuga á nýsköpun,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður og einn stofnenda félagsins.
Nordic Ignite leggur mikla áherslu á sjálfbærni og jafnrétti, bæði innan fjárfestingarfélagsins og hjá sprotafyrirtækjunum í eignasafninu. Teymin hugi þannig að sjálfbærni strax frá upphafi, sem mun auðvelda þeim að sækja fjármagn og mynda viðskiptasambönd í framtíðinni.
Fjárfestingarfélagið horfir til þess að ljúka sinni fyrstu fjárfestingu í desember eða janúar.
Nánar er fjallað um Nordic Ignite í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út þann 24. nóvember 2022.