Aðeins einn þingmaður Flokks fólksins kveðst hlynntur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu samkvæmt niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins meðal allra þingmanna.
Viðskiptablaðið sendi eftirfarandi fyrirspurn á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“ Jafnframt var spurt um afstöðu til núverandi fyrirkomulags áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR.
Jakob Frímann Magnússon var sá eini sem sagðist hlynntur og kvaðst ekki sáttur við núverandi fyrirkomulag áfengissölu ÁTVR. Eini þingmaðurinn sem ekki fengust svör frá var Eyjólfur Ármannsson en vert er að hafa í huga að hann hefur opinberlega greint frá því að hann sé andvígur netsölu áfengis og telji að um lögbrot sé að ræða.
Svipuð lína var í svörum annarra þingmanna flokksins. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist „eindregið mótfallin þeim lögbrotum sem nú eru höfð í frammi.“
„Ef stokka á upp núgildandi kerfi um einkaleyfi ríkisins á áfengissölu, þá skal það gert með lögum. Það er í raun með ólíkindum hvernig lögreglan lokar augunum fyrir augljósum lögbrotum sem netsala áfengis er í dag og það án þess að grípa til aðgerða,“ sagði Inga. „Persónulega er ég hlynnt núgildandi fyrirkomulagi og finnst ekkert skorta upp á aðgengi fólks að áfengi.“
Guðmundur Ingi Kristinsson telur ekki þurfi að breyta fyrirkomulagi áfengissölu hér á landi en kveðst þó tilbúinn að hlusta á rök með og á móti tillögum að breyttri áfengislöggjöf. Hann leggur áherslu á að hann telji mikilvægt að löggjafarvaldið ákveði fyrirkomulag áfengissölu.
„Ef við viljum breyta einhverju í sambandi við þetta þá á bara að gera það löglega. Á meðan lögin eru þannig að það er einkasala hjá ríkinu, þá á bara að vera einkasala hjá ríkinu.“
Tómas A. Tómasson sagðist mótfallinn netsölu áfengis og að kerfið sé gott eins og það hafi verið undanfarin ár.
„Þeim mun minna aðgengi sem fólk hefur að áfengi og vímuefnum þeim mun færri missa tökin á neyzlunni.“
Afstaða Ásthildar Lóu Þórsdóttur var heldur óljósari en hún sagðist ekki viss hvort hún væri hlynnt eða andvíg netsölu áfengis. Ótímabært væri að mynda sér afstöðu þar sem skoða þurfi fyrirkomulagið.
„Ég tel að núverandi fyrirkomulag netsölu áfengis sé ekki samkvæmt lögum og því þurfi að fara í lagabreytingar ef þetta á að halda áfram,“ sagði Ásthildur Lóa. „Það gengur ekki að fólk fari ekki eftir lögum.“
Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.