Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur ráðið Jakob Birgisson og Þórólf Heiðar Þorsteinsson sem sína aðstoðarmenn.
Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins en þar er greint frá því að Jakob Birgisson útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 2018.
„Hann [Jakob] hefur starfað sem uppistandari síðan og hefur haldið fjölda sýninga um land allt. Samhliða uppistandi hefur Jakob starfað við texta- og hugmyndavinnu hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Þá hefur hann verið sjálfstætt starfandi við textagerð, stefnumótun og kynningarmál. Jakob á einnig feril í dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Eiginkona hans er Sólveig Einarsdóttir hagfræðingur og eiga þau saman dæturnar Herdísi og Sigríði. Þau eru búsett í vesturbæ Reykjavíkur,“ segir á vef stjórnarráðsins.
Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og hlaut lögmannsréttindi árið 2010.
Þá lauk hann LL.M-gráðu frá Uppsalaháskóla árið 2015. Þórólfur hefur starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu frá árinu 2022, en áður starfaði hann sem lögfræðingur hjá Bankasýslu ríkisins og BBA/Fjeldco.
„Þórólfur hefur mikla reynslu af félagsstörfum og er meðal annars varaformaður aðalstjórnar Breiðabliks og formaður áfrýjunardómstóls Körfuknattleikssambands Íslands. Þá hefur hann þjálfað yngri flokka í körfuknattleik hjá Breiðablik í mörg ár. Jafnframt er hann einn af eigendum veitingastaðarins Mossley á Kársnesinu.“
Jakob og Þórólfur hafa þegar tekið til starfa í ráðuneytinu.