Þor­björg Sigríður Gunn­laugs­dóttir dóms­málaráðherra hefur ráðið Jakob Birgis­son og Þórólf Heiðar Þor­steins­son sem sína að­stoðar­menn.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins en þar er greint frá því að Jakob Birgis­son út­skrifaðist frá Mennta­skólanum í Reykja­vík 2018.

„Hann [Jakob] hefur starfað sem uppi­standari síðan og hefur haldið fjölda sýninga um land allt. Sam­hliða uppi­standi hefur Jakob starfað við texta- og hug­mynda­vinnu hjá aug­lýsinga­stofunni Hvíta húsinu. Þá hefur hann verið sjálf­stætt starfandi við texta­gerð, stefnumótun og kynningar­mál. Jakob á einnig feril í dag­skrár­gerð í út­varpi og sjón­varpi. Eigin­kona hans er Sól­veig Einars­dóttir hag­fræðingur og eiga þau saman dæturnar Her­dísi og Sigríði. Þau eru bú­sett í vestur­bæ Reykja­víkur,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Þórólfur Heiðar Þor­steins­son lauk meistaraprófi í lög­fræði frá Háskóla Ís­lands árið 2007 og hlaut lög­manns­réttindi árið 2010.

Þá lauk hann LL.M-gráðu frá Upp­sala­háskóla árið 2015. Þórólfur hefur starfað sem lög­fræðingur hjá Sam­keppnis­eftir­litinu frá árinu 2022, en áður starfaði hann sem lög­fræðingur hjá Bankasýslu ríkisins og BBA/Fjeldco.

„Þórólfur hefur mikla reynslu af félags­störfum og er meðal annars vara­for­maður aðal­stjórnar Breiða­bliks og for­maður áfrýjunar­dómstóls Körfu­knatt­leiks­sam­bands Ís­lands. Þá hefur hann þjálfað yngri flokka í körfu­knatt­leik hjá Breiða­blik í mörg ár. Jafn­framt er hann einn af eig­endum veitingastaðarins Mossl­ey á Kárs­nesinu.“

Jakob og Þórólfur hafa þegar tekið til starfa í ráðu­neytinu.