Samkvæmt ársuppgjöri Skaga hf. skilaði félagið um 2.258 milljóna króna árið 2024 hagnaði í samanburði við 1.832 milljónir króna árið áður.
Tekjur af tryggingastarfsemi héldu áfram að vaxa um 10,2% milli ára, en kostnaðarhlutfall lækkaði og samsett hlutfall stóð í 94,9%, sem er í samræmi við markmið félagsins.
Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 2.344 milljónum króna og jukust um 91% í pro-forma samanburði frá fyrra ári.
Ávöxtun af fjáreignum, sér í lagi skráðum hlutabréfum, tók við sér á fjórða ársfjórðungi, en óskráð hlutabréf höfðu neikvæð áhrif á afkomu fjárfestinga yfir árið í heild.
Hagnaður á hlut nam 1,19 krónum, samanborið við 0,97 krónur árið 2023. Eigið fé samstæðu nam 22,3 milljörðum króna, arðsemi eigin fjár var 10,8% á ársgrundvelli og gjaldþol samstæðu var 1,35 við lok ársins.
„Árið 2024 var fyrsta heila rekstrarár Skaga og ánægjulegt var að sjá að meginmarkmiðum sem voru sett fyrir árið var náð. Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og markviss skref voru tekin í átt að framtíðarsýn félagsins. Breyttar áherslur í rekstri VÍS skiluðu sér í miklum tekjuvexti, aukinni arðsemi og sókn í markaðshlutdeild á árinu. Fjármálastarfsemin óx einnig umtalsvert á síðasta ári, bæði með innri- og ytri vexti og skilaði jákvæðri afkomu á tímabilinu. Með innkomu Íslenskra verðbréfa á fjórða ársfjórðungi jukust eignir í stýringu innan samstæðunnar um ríflega 100 milljarða og stóðu í tæplega 230 milljörðum í lok árs,” segir Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga.
Tekjur af tryggingarstarfsemi jukust um 10%
Tryggingastarfsemi félagsins hélt áfram að vaxa, með 10,2% tekjuaukningu milli ára. Sérstaklega skilaði líf- og sjúkdómatryggingastarfsemi góðum vexti, eða 14,9% aukningu.
Samsett hlutfall var 94,9%, samanborið við 99,5% árið 2023, sem er í takt við stefnu félagsins um að halda samsettu hlutfalli undir 95%.
Kostnaðarhlutfall lækkaði úr 22,3% í 19,1% og afkoma af vátryggingasamningum var 1.479 milljónir króna, sem samsvarar viðsnúningi upp á 1.336 milljónir króna frá árinu 2023.
„Breyttar áherslur í þjónustu og sölu auk sértækra aðgerða á kostnaðarhliðinni skiluðu sér í umtalsverðri lækkun á bæði kostnaðarhlutfalli og samsettu hlutfalli. Afkoma af vátryggingum jókst mikið á milli ára eða úr 143 milljónum árið 2023 í 1.479 milljónir árið 2024. Niðurstaðan er eitt besta ár í tryggingarekstri frá skráningu félagsins. Það er í takt við markmið okkar um arðbæran vöxt. Við höfum sett okkur markmið um að veita bestu þjónustuna á tryggingamarkaði,” segir Haraldur.
Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 2.344 milljónum króna, samanborið við 1.225 milljónir króna árið áður í pro-forma samanburði.
Tekjusamsetning fjármálastarfsemi hélt áfram að þróast í átt að aukinni dreifingu, en tekjur af markaðsviðskiptum stóðu undir 38% af heildartekjum fjármálastarfsemi, samanborið við 69% árið 2023.
Eignir í stýringu námu 227 milljörðum króna. Afkoma af fjármálastarfsemi var jákvæð um 18 milljónir króna fyrir skatta og 220 milljónir króna eftir skatta, en jákvæð skattaleg áhrif komu aðallega frá áhættuvarnarsamningum bankans vegna viðskipta viðskiptavina.
„Tekjur af fjármálastarfsemi jukust mikið eða um 91% á milli ára og náðust þau tekjumarkmið sem sett voru fyrir árið 2024. Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 2.344 milljónum á árinu en lagt var upp með að tekjur yrðu umfram 2.200 milljónir á árinu. Starfsemi Fossa fjárfestingarbanka óx stórum skrefum en, þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður drjúgan hluta ársins, þá nær tvöfaldaðist efnahagur bankans á árinu og reglulegar tekjur bankans jukust hlutfallslega í takti við það,” segir Haraldur.
Fjárfestingartekjur námu 3.657 milljónum króna, samanborið við 4.753 milljónir króna árið 2023, sem samsvarar 8,3% ávöxtun.
Ávöxtun var lægri en viðmiðunarvísitölur, aðallega vegna lækkunar á virði óskráðra hlutabréfa í eignasafni félagsins. Hreinar tekjur af fjárfestingum voru 1.742 milljónir króna, samanborið við 2.771 milljón króna árið áður.
Á fjórða ársfjórðungi nam hagnaður samstæðunnar eftir skatta 1.558 milljónum króna, samanborið við 152 milljónir króna árið áður.
Afkoma af vátryggingasamningum nam 437 milljónum króna, tekjur jukust um 10,3% og samsett hlutfall var 94,2%. Kostnaðarhlutfall lækkaði í 19,8% úr 23,8% á sama tíma árið áður.
Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 892 milljónum króna, samanborið við 447 milljónir króna árið áður, og hagnaður fyrir skatta var 169 milljónir króna, samanborið við 4 milljóna króna tap árið 2023. Fjárfestingartekjur námu 1.646 milljónum króna, samanborið við 1.498 milljónir króna árið áður.
Félagið býst við því að hreinar fjármálatekjur nemi á bilinu 2.900 – 3.500 milljónum á árinu og að samsett hlutfall verði á bilinu 93% – 96%. Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 10% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu.