Heildartekjur Alvotech á fyrstu sex mánuðum ársins námu 236 milljónum dollara, eða um 32,8 milljörðum króna, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra. Íslenska líftæknilyfjafélagið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í kvöld.

Heildartekjur Alvotech á fyrstu sex mánuðum ársins námu 236 milljónum dollara, eða um 32,8 milljörðum króna, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra. Íslenska líftæknilyfjafélagið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í kvöld.

„Þetta eru afar spennandi tímar fyrir félagið. Á fyrri helmingi ársins setti Alvotech met í tekjum og framlegð. Heildartekjur jukust meira en tífalt frá sama tímabili í fyrra og aðlöguð EBITDA framlegð var jákvæð í fyrsta sinn í sögu félagsins, bæði á ársfjórðungnum og fyrri árshelmingi,“ segir Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech.

Aðlöguð EBITDA-framlegð Alvotech nam 64 milljónum dollara, eða um 8,9 milljörðum króna, á fyrri árshelmingi. Til samanburðar var hún neikvæð um 147 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Þess má geta að EBITDA framlegðin nam 102 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi.

Alvotech tapaði hins vegar 153,5 milljónum dollara, eða um 21,3 milljörðum króna, eftir skatta sem má einkum rekja til hás fjármagnskostnaðar. Félagið segir að með endurfjármögnun skulda, sem var lokið 11. júlí, hafi fjármagnskostnaður félagsins verið lækkaður og samsetning skulda einfölduð til muna.

Þegar byrjuð að fá endurteknar pantanir

Tekjur Alvotech af vörusölu á fyrri helmingi ársins jukust um 190% frá sama tímabili í fyrra í 66 milljónir dollara, en þar af voru tekjur á öðrum fjórðungi 53 milljónir dala. Þá jukust áfangagreiðslur og aðrar tekjur á fyrri árshelmingi í 170 milljónir dollara, en þar af voru tekjur á öðrum fjórðungi 145 milljónir dala.

„Sölutekjur vaxa hratt, þar sem við erum nú með tvö lyf í sölu á mörkuðum um allan heim. Þá voru áfangagreiðslur sérlega háar á öðrum ársfjórðungi vegna góðs árangurs í þróun og markaðssamstarfi,“ segir Róbert.

Alvotech og samstarfsaðili þess Teva Pharmaceuticals Ltd. tilkynntu í maí um að sala væri hafin í Bandaríkjunum á Simlandi, fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við gigtarlyfið Humira, eins tekjuhæsta lyfs heims. Alvotech fékk langþráð markaðsleyfi frá FDA fyrir hliðstæðunni í febrúar.

„Pantanabókin í Bandaríkjunum fyrir hliðstæðuna við Humira hefur þegar vaxið úr 1 milljón eininga eins og við höfðum áður kynnt, í um 1,3 milljónir eininga í dag. Tekjur af þessari sölu munu að meginhluta verða bókfærðar á síðari hluta ársins,“ segir Róbert.

Þá hefur Alvotech og samstarfsfélag þess STADA hafið markaðssetningu hafin á Uzpruvo (ustekinumab, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara í meirihluta Evrópulanda. Þá veitti FDA Alvotech markaðsleyfi fyrir hliðstæðu Stelara í Bandaríkjunum í apríl og gerir félagið ráð fyrir að hliðstæðan fari á markað í Bandaríkjunum snemma á næsta ári.

„Stefna Alvotech frá upphafi hefur verið að selja breitt úrval líftæknilyfjahliðstæða um allan heim og er hún óðum að raungerast. Dæmi um það er að við höfum nú markaðssett hliðstæðuna við Stelara í Kanada, Japan og fjölda Evrópuríkja. Við erum þegar byrjuð að fá endurteknar pantanir frá söluaðilum til að fylla á birgðir,“ segir Róbert.