Hlutabréfavísitölur vestanhafs hækkuðu í viðskiptum gærdagsins er S&P 500 vísitalan fór upp um 1,6%, Nasdaq um 2,3% og Dow Jones um 1,4%. Samkvæmt The Wall Street Journal virðist allt með kyrrum kjörum vestanhafs eftir ókyrrð á mörkuðum í síðustu viku.
Á miðvikudaginn greindi vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna frá því að verðbólga í Bandaríkjunum væri að hjaðna og mældist verðbólgan á ársgrundvelli 2,9% í júlímánuði. Hagfræðingar vestanhafs eru flestir á því máli að seðlabankinn muni lækka vexti í september.
Fjárfestar fylgdust náið með uppgjörum byggingarvöruverslunarrisans Home Depot og Walmart til að sjá stöðu neytenda. Stjórn Walmart sagði engin ummerki um samdrátt yfirvofandi.
Árshlutauppgjör Walmart kom flestum greiningaraðilum á óvart en svo virðist sem neytendur vestanhafs séu á ágætum stað þrátt fyrir háa vexti. Hagtölur benda einnig til þess að neysla í verslunum, á netinu og á veitingastöðum jókst um 1% í júlímánuði.
VIX-vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta, féll niður í 15,23 stig í gær og hefur ekki verið lægri í meira en mánuð.
Hlutabréfaverð Ultra Beauty leiddi hækkanir á mörkuðum í gær er gengi félagsins fór upp um 11% eftir að greint var frá því fyrir opnun markaða að Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet, væri búið að fjárfesta í félaginu.