Hluta­bréfa­vísi­tölur vestan­hafs hækkuðu í við­skiptum gær­dagsins er S&P 500 vísi­talan fór upp um 1,6%, Nas­daq um 2,3% og Dow Jones um 1,4%. Sam­kvæmt The Wall Street Journal virðist allt með kyrrum kjörum vestan­hafs eftir ó­kyrrð á mörkuðum í síðustu viku.

Á mið­viku­daginn greindi vinnu­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna frá því að verð­bólga í Banda­ríkjunum væri að hjaðna og mældist verð­bólgan á árs­grund­velli 2,9% í júlí­mánuði. Hag­fræðingar vestan­hafs eru flestir á því máli að seðla­bankinn muni lækka vexti í septem­ber.

Fjár­festar fylgdust náið með upp­gjörum byggingar­vöru­verslunar­risans Home Depot og Wal­mart til að sjá stöðu neyt­enda. Stjórn Wal­mart sagði engin um­merki um sam­drátt yfir­vofandi.

Árs­hluta­upp­gjör Wal­mart kom flestum greiningar­aðilum á ó­vart en svo virðist sem neyt­endur vestan­hafs séu á á­gætum stað þrátt fyrir háa vexti. Hag­tölur benda einnig til þess að neysla í verslunum, á netinu og á veitinga­stöðum jókst um 1% í júlí­mánuði.

VIX-vísi­talan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísi­tölunnar sam­kvæmt verð­lagningu á val­réttum tengdum henni og gefur vís­bendingu um á­hættu­fælni fjár­festa, féll niður í 15,23 stig í gær og hefur ekki verið lægri í meira en mánuð.

Hluta­bréfa­verð Ultra Beauty leiddi hækkanir á mörkuðum í gær er gengi fé­lagsins fór upp um 11% eftir að greint var frá því fyrir opnun markaða að Berks­hire Hat­haway, fjár­festinga­fé­lag War­ren Buf­fet, væri búið að fjár­festa í fé­laginu.