Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, ákvað í hádeginu að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25%.
Í skýrslu peningastefnunefndar segir að vextirnir séu að hafa jákvæð áhrif á verðbólguna en bankinn býst við því að ná 2% verðbólgumarkmiði sínu á næstu mánuðum.
Verðbólga á Bretlandseyjum fór úr 10% fyrir ári síðan í 4% frá desember.
Á blaðamannafundi í kjölfar ákvörðunarinnar sagði Andrew Baily seðlabankastjóri að verðbólgan væri að þróast í rétta átt. „Við erum þó ekki enn á þeim stað að við getum byrjað að lækka vexti,“ sagði Bailey.
Samkvæmt Viðskiptablaði The Guardian voru þrír nefndarmenn peningastefnunefndar þó ósammála seðlabankastjóranum.
„Verðstöðugleiki er grundvöllur heilbrigðs efnahags og við verðum að ná verðbólgunni niður í 2%,“ sagði Bailey á fundinum.
Samkvæmt hagspá seðlabankans mun verðbólga í Bretlandi hækka örlítið í janúar en lækka síðan niður í 3% í marsmánuði. Bankinn spáir því að verðbólgumarkmiði verði náð um í apríl, maí og júní.