Leiðandi hag­vísir Analyti­ca hækkaði í júní í tíunda mánuðinn í röð og náði gildinu 100,6, sam­kvæmt ráðgjafa­fy­ritækinu Analyti­ca.

Vísi­talan gefur til kynna að hag­vöxtur haldi áfram að styrkjast og bendir þróunin til þess að lands­fram­leiðsla verði yfir langtíma­leitni um næstu áramót, þ.e. í desember 2025.

Þrír af sex undir­liðum hækka frá í maí. Aukning afla­magns og hækkun væntinga­vísitölu hafa mest að segja á jákvæðu hliðinni.

Hins vegar virðist minni vöxtur í vöru­inn­flutningi og komur ferða­manna um Kefla­víkur­flug­völl undir langtíma­leitni. Um­tals­verð óvissa er áfram tengd þróun alþjóða­stjórn­mála sem og óvissa í efna­hags­málum á alþjóða­vett­vangi.

Hag­vísirinn er vísi­tala sem gefur vís­bendingu um vendi­punkta í efna­hags­um­svifum að sex mánuðum liðnum. Það er hlut­verk vísitölunnar að veita skýra sýn á efna­hags­horfur og vara tíman­lega við viðsnúningi í efna­hags­um­svifum.

Vísi­talan byggir á að­ferðafræði OECD og tekur mið af sex lykilþáttum: afla­magni, debet­korta­veltu, ferða­manna­fjölda, heims­vísitölu hluta­bréfa, vöru­inn­flutningi og væntinga­vísitölu Gallup. Upp­færðar niður­stöður fyrir júní benda til þess að ís­lenskt efna­hags­líf gæti tekið við sér af meiri krafti síðla ársins.

Þrátt fyrir hækkun vísitölunnar og aukna bjartsýni má ekki líta fram hjá þeirri óvissu sem enn ríkir á alþjóða­vett­vangi.

Þróun alþjóða­stjórn­mála, álag í heims­hag­kerfinu og verðbreytingar á hrávörum gætu haft neikvæð áhrif á þróun efna­hags­starf­semi næstu mánuði.

Sér­stök at­hygli hefur verið vakin á inn­flutningi fjár­festingar­vara, sem virðist enn vera í vexti, en vöxtur í magni annars vöru­inn­flutnings er á undan­haldi.

Gildið 100 í vísitölunni táknar að lands­fram­leiðsla sé í takt við langtíma­leitni. Með því að ná 100,6 í júní hefur vísi­talan í fyrsta sinn síðan árið 2021 náð að skýrt marka sig yfir leitni.

Þetta styrkir þá sýn að hag­kerfið sé að komast út úr síðustu sam­dráttar­skeiðum og að vöxtur sé að ná fót­festu á ný.