Hluta­bréfa­verð nær allra fé­laga á aðal­markaði hafa hækkað frá opnun markaða í morgun eftir að Hag­stofan greindi frá veru­legri lækkun á árs­verð­bólgu í septem­ber.

Verð­bólga mældist nokkuð undir spám greiningar­deilda Ís­lands­banka og Lands­bankans og dróst saman um 0,6 prósentu­stig frá fyrri mánuði þegar hún mældist 6,0%.

Vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis lækkaði um 0,55% milli mánaða og mældist 2,8%. Árs­hækkun vísi­tölunnar án hús­næðis mældist 3,6% í ágúst.

Úr­vals­vísi­talan hefur hækkað um 1,11% í morgun og er velta komin yfir tvo milljarða.

Fasteignafélögin Reitir og Kaldalón leiða hækkanirnar þegar þetta er skrifað en gengi félaganna tveggja hækkaði um 4,5% hvort í fyrstu viðskiptum.

Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq, sem hefur verið á miklu skriði á síðustu vikum, hefur hækkað um 4%.

Gengi félagsins hafði hækkað um 24,5% á síðustu tveimur vikum fyrir viðskipti dagsins.