Íslenski hlutabréfamarkaðurinn byrjaði árið ágætlega og hækkaði úrvalsvísitalan OMXI15 um 3,6% í janúarmánuði.
Sé miðað við dagslokagengi vísitölunnar á síðasta viðskiptadegi janúarmánaðar, 2.994,910 stig, hefur hún lækkað um 132,37 stig það sem af er febrúarmánaðar, sem jafngildir um 4,42% lækkun.
Lokagildi vísitölunnar í dag var 2.862,54 eftir um 1,65% lækkun í viðskiptum dagsins.
Úrvalsvísitalan hefur þó enn hækkað um 13% síðastliðið ár sem er mun meiri hækkun en hjá sambærilegum vísitölum á Norðurlöndunum.
Úrvalsvísitala Danmerkur hefur lækkað um 3% síðastliðið ár á meðan sú finnska hefur hækkað um 6,26%. Sænska úrvalsvísitalan kemst næst þeirri íslensku eftir um 11,2% hækkun síðastliðið ár.
Af fyrirtækjum vísitölunnar lækkuðu Alvotech og Skagi mest í viðskiptum dagsins en gengi líftæknilyfjafélagsins fór niður um 2,33% í 142 milljón króna veltu á meðan gengi Skaga lækkaði um 2,33% í 32 milljón króna veltu.
Gengi Festi og Haga lækkaði um rúm 2% í um 120 milljón króna veltu hvor í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq lækkaði um rúm 3% í viðskiptum dagsins í um 59 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Amaroq var 179 krónur en gengið stóð hæst í 209 krónum um miðjan janúar.
Aðeins þrjú félög hækkuðu í viðskiptum dagsins en ekkert af þeim um meira en eitt prósent.
Mesta hækkun var á gengi Sýnar sem fór upp um 0,9% í örviðskiptum í dag.
Dagslokagengi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins var 21,6 krónur sem er um 33% lægra en í ársbyrjun.