Japanskir fjár­festar, þar á meðal líf­eyris­sjóðir, bankar og tryggingafélög, seldu er­lend skulda­bréf fyrir sam­tals 20 milljarða Bandaríkja­dala á tveimur vikum í apríl.

Sölu­bylgjan hófst í kjölfar tolla­yfir­lýsingar Donalds Trump, sem olli veru­legri óvissu á mörkuðum og hratt af stað sveiflum á verðbréfa- og skulda­bréfa­mörkuðum víða um heim.

Sam­kvæmt bráða­birgðagögnum frá japanska fjár­málaráðu­neytinu nam salan tæp­lega 17,5 milljörðum dala í vikunni sem lauk 4. apríl og 3,6 milljörðum í vikunni á eftir. Um er að ræða eitt mesta út­flæði japanskra fjár­festa af þessu tagi frá því að skráningar hófust árið 2005, sam­kvæmt Financial Times.

Upp­haf sölunnar má rekja til yfir­lýsingar Trumps þann 2. apríl, þar sem hann til­kynnti um nýja víðtæka verndar­tolla undir merkjum „frelsis­dags“.

Yfir­lýsingin olli miklum óróa á fjár­málamörkuðum, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem S&P 500 hluta­bréfa­vísi­talan féll um 12% á aðeins fjórum dögum. Trump dró síðar hluta tollanna til baka tíma­bundið með 90 daga fresti, en þá höfðu áhrifin þegar náð til skulda­bréfa­markaða og fjár­festa um allan heim.

Verð á bandarískum ríkis­skulda­bréfum lækkaði skarpt í takt við aukin söluþrýsting og hækkaði ávöxtunar­krafa á 10 ára bréf um­fram það sem sést hafði síðan 2001.

Greiningaraðilar telja að um­tals­verður hluti sölunnar komi frá japönskum líf­eyris­sjóðum og öðrum langtíma­fjár­festum sem hafi þurft að jafna út eignasöfnin sín eftir verð­fall á hluta­bréfum.

Þegar verð á hluta­bréfum fellur skekkist hlut­fallið milli áhættu­samra og áhættulítilla eigna í safninu, sem kallar á sölu skulda­bréfa til að viðhalda stefnumörkuðu jafn­vægi.

Tomoaki Shishido, sér­fræðingur í vaxtaþróun hjá japanska bankanum Nomura, telur að stór hluti þessara við­skipta hafi falið í sér sölu á bandarískum ríkis­skulda­bréfum eða ríkis­tryggðum íbúða­bréfum. „Það gæti líka verið að bankar eða vá­tryggingafélög hafi ein­fald­lega dregið úr vaxtaáhættu í ljósi sveiflunnar,“ bætir hann við.

Fjárfestar í vaxtamunarviðskiptum

Sumir fjár­festar í Japan hafa einnig verið að loka svo­kölluðum vaxtarmunarviðskiptasamningnum (e. carry tra­des).

Þessir samningar fela í því að fjár­festir tekur lán í gjald­miðli með mjög lága vexti, til dæmis jenum, til að fjár­festa í skulda­bréfum í öðrum löndum sem bera hærri vexti. Arðurinn liggur í vaxta­muninum.

Þegar markaðsaðstæður breytast skyndi­lega, eða vextir hækka í löndunum þar sem fjár­festingin er gerð, getur áhættan aukist veru­lega. Þá neyðast fjár­festar oft til að loka slíkum stöðum með því að selja eignir og færa fjár­magn aftur til upp­runa­landsins, sem aftur dregur úr eftir­spurn og hækkar ávöxtunar­kröfur á skulda­bréfa­mörkuðum.

Þrátt fyrir að sölu­magnið frá Japan hafi verið mikið í sögu­legu sam­hengi vara sumir sér­fræðingar við of­mati á áhrifunum.

Stefan Angrick, hag­fræðingur hjá Moo­dy’s Analytics, bendir á að dag­leg velta á bandaríska ríkis­skulda­bréfa­markaðnum nemi um 1.000 milljörðum dala á dag. „Fjár­hæðirnar líta út fyrir að vera stórar í fyrir­sögnum, en í sam­hengi markaðarins eru þær vart meira en smávægi­legur titringur,“ segir hann.

Merki um viðkvæmni

Þótt áhrifin hafi í heild verið hóf­leg, undir­strikar þessi þróun hversu fljótt óvissa í einu hag­kerfi getur haft áhrif á fjár­mála­kerfi annars lands.

Japan er stærsti er­lendi eig­andi bandarískra ríkis­skulda­bréfa með yfir 1,1 billjón (e.trillion) dala í slíkum eignum. Sam­kvæmt FT er því sala af þessari stærðar­gráðu vel þess virði að fylgjast með, ekki síst þegar hún fellur saman við pólitísk átök og hræringar í Was­hington.