Japanskir fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, bankar og tryggingafélög, seldu erlend skuldabréf fyrir samtals 20 milljarða Bandaríkjadala á tveimur vikum í apríl.
Sölubylgjan hófst í kjölfar tollayfirlýsingar Donalds Trump, sem olli verulegri óvissu á mörkuðum og hratt af stað sveiflum á verðbréfa- og skuldabréfamörkuðum víða um heim.
Samkvæmt bráðabirgðagögnum frá japanska fjármálaráðuneytinu nam salan tæplega 17,5 milljörðum dala í vikunni sem lauk 4. apríl og 3,6 milljörðum í vikunni á eftir. Um er að ræða eitt mesta útflæði japanskra fjárfesta af þessu tagi frá því að skráningar hófust árið 2005, samkvæmt Financial Times.
Upphaf sölunnar má rekja til yfirlýsingar Trumps þann 2. apríl, þar sem hann tilkynnti um nýja víðtæka verndartolla undir merkjum „frelsisdags“.
Yfirlýsingin olli miklum óróa á fjármálamörkuðum, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem S&P 500 hlutabréfavísitalan féll um 12% á aðeins fjórum dögum. Trump dró síðar hluta tollanna til baka tímabundið með 90 daga fresti, en þá höfðu áhrifin þegar náð til skuldabréfamarkaða og fjárfesta um allan heim.
Verð á bandarískum ríkisskuldabréfum lækkaði skarpt í takt við aukin söluþrýsting og hækkaði ávöxtunarkrafa á 10 ára bréf umfram það sem sést hafði síðan 2001.
Greiningaraðilar telja að umtalsverður hluti sölunnar komi frá japönskum lífeyrissjóðum og öðrum langtímafjárfestum sem hafi þurft að jafna út eignasöfnin sín eftir verðfall á hlutabréfum.
Þegar verð á hlutabréfum fellur skekkist hlutfallið milli áhættusamra og áhættulítilla eigna í safninu, sem kallar á sölu skuldabréfa til að viðhalda stefnumörkuðu jafnvægi.
Tomoaki Shishido, sérfræðingur í vaxtaþróun hjá japanska bankanum Nomura, telur að stór hluti þessara viðskipta hafi falið í sér sölu á bandarískum ríkisskuldabréfum eða ríkistryggðum íbúðabréfum. „Það gæti líka verið að bankar eða vátryggingafélög hafi einfaldlega dregið úr vaxtaáhættu í ljósi sveiflunnar,“ bætir hann við.
Fjárfestar í vaxtamunarviðskiptum
Sumir fjárfestar í Japan hafa einnig verið að loka svokölluðum vaxtarmunarviðskiptasamningnum (e. carry trades).
Þessir samningar fela í því að fjárfestir tekur lán í gjaldmiðli með mjög lága vexti, til dæmis jenum, til að fjárfesta í skuldabréfum í öðrum löndum sem bera hærri vexti. Arðurinn liggur í vaxtamuninum.
Þegar markaðsaðstæður breytast skyndilega, eða vextir hækka í löndunum þar sem fjárfestingin er gerð, getur áhættan aukist verulega. Þá neyðast fjárfestar oft til að loka slíkum stöðum með því að selja eignir og færa fjármagn aftur til upprunalandsins, sem aftur dregur úr eftirspurn og hækkar ávöxtunarkröfur á skuldabréfamörkuðum.
Þrátt fyrir að sölumagnið frá Japan hafi verið mikið í sögulegu samhengi vara sumir sérfræðingar við ofmati á áhrifunum.
Stefan Angrick, hagfræðingur hjá Moody’s Analytics, bendir á að dagleg velta á bandaríska ríkisskuldabréfamarkaðnum nemi um 1.000 milljörðum dala á dag. „Fjárhæðirnar líta út fyrir að vera stórar í fyrirsögnum, en í samhengi markaðarins eru þær vart meira en smávægilegur titringur,“ segir hann.
Merki um viðkvæmni
Þótt áhrifin hafi í heild verið hófleg, undirstrikar þessi þróun hversu fljótt óvissa í einu hagkerfi getur haft áhrif á fjármálakerfi annars lands.
Japan er stærsti erlendi eigandi bandarískra ríkisskuldabréfa með yfir 1,1 billjón (e.trillion) dala í slíkum eignum. Samkvæmt FT er því sala af þessari stærðargráðu vel þess virði að fylgjast með, ekki síst þegar hún fellur saman við pólitísk átök og hræringar í Washington.