Töluverðar lækkanir voru á asíska hlutabréfamarkaðnum í morgun. Hlutabréf þriggja stórra japanskra banka féllu um meira en 7% í morgun en markaðir eru enn að bregðast við falli Silicon Valley Bank í Kaliforníu.

Hang Seng vísitalan, sem fylgir hlutabréfum félaga á hlutabréfamarkaðnum í Hong Kong, japanska Nikkei 225, og suður-kóreska Kospi vísitalan féllu allar um meira en 2% í morgun. Kínverska CSI 300 vísitalan lækkaði um 0,6%.

Japanska Topix Banks vísitalan féll um meira en 7% en hún hefur ekki fallið meira á einum degi í þrjú ár. Hlutabréf fjármála- og bankasamsteypanna MUFG, Mizuho og SMFG lækkuðu um 7,1-8,6% í morgun.

Fjárfestar í Tókýó sögðust eiga von á að Seðlabanki Japans myndi grípa inn í og styðja við hlutabréfamarkaðinn annan daginn í röð til að koma í veg fyrir frekari lækkanir, að því er segir í umfjöllun Financial Times. Seðlabankinn tilkynnti í gærkvöldi að hann hefði keypt hlutdeildarskírteini í skráðum hlutabréfasjóðum að andvirði 5,2 milljarða dala í gær.

Evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um 0,1% í fyrstu viðskiptum í dag, enska FTSE 100 um 0,3% og íslenska Úrvalsvísitalan um 0,1%.