Nokkur af stærstu fyrirtækjum Japans hafa tilkynnt að þau séu að slíta tengsl sín við stærstu hæfileikaskrifstofu landsins í ljósi kynferðisbrotamáls. Fyrirtæki á borð við Nissan, Asahi og Suntory munu ekki endurnýja samninga sína við hæfileikaskrifstofuna Johnny and Associates.
Landbúnaðarráðuneyti Japans segist einnig ætla að hætta að ráða stjörnur úr röðum skrifstofunnar.
Johnny and Associates er stærsta skrifstofa Japans fyrir J-Pop og strákahljómsveitir. Í síðasta mánuði leiddi óháð rannsókn á stofnunni í ljós að stofnandi skrifstofunnar, Johnny Kitagawa, hafði misnotað hundruð drengja og ungra karlmanna á sex áratuga ferli sínum áður en hann lést árið 2019.
Heimildarmynd sem fréttastofan BBC sýndi í mars um Kitagawa skapaði miklar umræður í Japan og varð hún til þess að fleiri J-Pop stjörnur stigu fram og sögðu frá eigin reynslu.
Þrýstingar frá almenningi leiddi á endanum til afsagnar Julie Fujishima, frænku Kitagawa. Viðurkenndi hún þá opinberlega í fyrsta skipti kynferðisofbeldið sem frændi hennar framdi.
Daginn eftir tilkynnti drykkjaframleiðandinn Asahi Group Holdings að það myndi hætta öllum sjónvarps- og netauglýsingum með stjörnum stofnunarinnar. „Við ætlum ekki að taka inn eitt jen á kostnað mannréttinda,“ sagði Atsushi Katsuki, forseti Asahi.
Spjótin beinast einnig gegn núverandi yfirmanni stofnunarinnar, Noriyuki Higashiyama, en hann stendur einnig frammi fyrir ásökunum um kynferðisbrot gegn ungum drengjum.
Þar til Kitagawa lést var hann þjóðþekktur í Japan og átti meðal annars heimsmet í að flestum tónleikum sem framleiddir voru af einum einstaklingi, útgáfu flestra smáskífa og flesta listamenn sem enduðu í efsta sæti. Í kjölfar rannsóknar hefur Heimsmetabók Guinness hins vegar fjarlægt afrek hans af vefsíðu sinni.